Þessu greinir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, frá í færslu sem hann ritaði á Facebook í dag. Hannes segist í samtali við blaðamann ekki hafa hugmynd um það hvernig skotförin í stofuglugganum atvikuðust.
Hannes segist fordæma allt ofbeldi skilyrðislaust en telur ofbeldi sem beinist að persónum alvarlega en skemmdir á bílum.
„Sérstaklega minnist ég þess, þegar Hallgrímur Helgason rithöfundur réðst á bíl Geirs Haarde forsætisráðherra og reyndi að brjóta framrúðuna í janúar 2009,“ sagði Hannes og bætir því við að ofbeldi sé ekki nýtt af nálinni en sem betur fer hafi það verið undantekning freka en regla á Íslandi.
„Ég minnist þess þó, þegar hópar manna fóru heim til stjórnmálamanna eftir bankahrunið og sátu um þá, til dæmis til Þorgerðar Katrínar. Ég fordæmi það alveg sérstaklega.“
Einn í gæsluvarðhaldi
Fjallað hefur verið um skotárás á bíl borgarstjóra í fréttum í vikunni. Karlmaður um sextugt var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald, eða til 1. febrúar, vegna gruns um aðild að skotárásinni á bíl borgarstjóra um síðastliðna helgi.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í kvöldfréttum Stöðvar2 að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en ákvarðanir um hertar öryggisráðstafanir verða teknar, í kjölfar skotárásarinnar á bíl borgarstjóra og húsnæði stjórnmálaflokkanna. Jafnframt sagði hún of snemmt að segja til um hvort hafa þurfi áhyggjur.
Hugsar til Gríms amtmanns í Norðurreið Skagfirðinga
Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki tilkynnt skotförin sem sáust í stofuglugganum segist hann ekki hafa talið ástæðu til þess. Honum hafi alltaf verið sagt að birta sem minnst opinberlega um slík mál þar sem hætta væri á að aðrir fengu hugmyndir um voðaverk vegna slíkra frétta.
„En mér fannst í lagi að segja frá þessari reynslu minni því að ég er, held ég, ekki lengur opinber persóna, heldur lítt kunnur grúskari á Þjóðarbókhlöðunni. Mér er núna efst í huga hversu illa var farið með Grím amtmann í Norðurreið Skagfirðinga,“ sagði Hannes.