Handbolti

„Varð smá smeykur þarna í seinni hálf­leik að ÍBV kæmu með eitt­hvað á­hlaup”

Einar Kárason skrifar
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka.
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka. Haukar

„Mér líður bara alveg dásamlega,” sagði Gunnar Gunnarsson,“ þjálfari Hauka, eftir þriggja marka sigur liðsins í Vestmannaeyjum í Olís-deild kvenna í kvöld. Lokatölur í leik ÍBV og Hauka 27-30 gestunum í vil.

„Stelpurnar voru alveg frábærar. Þvílík barátta og liðsheild sem þær sýndu. Allar sem komu inn voru að skila góðu verki. Líka bara að halda haus á móti þessu sterka liði. Ég varð smá smeykur þarna í seinni hálfleik að ÍBV kæmu með eitthvað áhlaup en það tókst ekki hjá þeim.”

„Af reynslunni frá síðasta leik þá var ég kannski of seinn. Mér fannst það sama vera að gerast. Við lentum fjögur eða fimm núll undir á móti Stjörnunni. Við ætluðum bara að stoppa þetta strax og aðeins fara yfir það sem við vorum búin að tala um. Við vorum ekki að gera það í fyrstu sóknunum. Það tókst þarna og það er ekki alltaf lukka með í þessum leikjum.”

Þrátt fyrir að Haukar hafi stjórnað ferðinni bróðurpart leiksins komust ÍBV yfir eftir góðan kafla um miðjan síðari hálfleik.

„Mér fannst það ótrúlega sterkt. Við lendum þarna undir og ekki mikið eftir. Stelpurnar koma til baka og höfðu trú á þessu. Frábært að sjá þessar ungu stelpur koma inn. Líka frábært að sjá þessa eldri leikmenn, hvernig þær eru að taka ábyrgð og miðla reynslu sinni til yngri leikmanna sem eru að koma inn á. Þetta eykur bara breiddina hjá okkur og gerir þetta skemmtilegra.“

Markaskorun Hauka dreifðist þétt og jafnt yfir liðið og var Gunnar ánægður með það.

„Það er frábært þegar það gerist. Við erum að hreyfa mikið af mannskap og eins og ég segi, þær eru allar að skila einhverju hlutverki,“ sagði Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×