Umfjöllun og viðtöl: KR - Keflavík 74-98 | Keflavík á toppinn Árni Jóhannsson skrifar 5. febrúar 2021 22:44 Hörður Axel Vilhjálmsson. Vísir/Daníel Þór Það var beðið með eftirvæntingu eftir leik KR og Keflavíkur sem fram fór í DHL-höllinni fyrr í kvöld. Þetta var stórleikur 8. umferðar Dominos-deildar karla og þarna mættust tveir skólar af körfubolta sem fróðlegt var að fylgjast með. Í fyrri hálfleik var það skólinn sem KR aðhyllist sem fékk sviðsljósið en þeim finnst best að spila hratt og skjóta mikið og hafa sigurleikir þeirra komið þegar þeim hefur tekist það. Keflvíkingar reyndu sig við að hlaupa með þeim og úr varð fínasta skemmtun þar sem varnarleikurinn var í öðru sæti en liðin skiptust á að skora á löngum köflum fyrsta leikhluta en skiptu síðan um gír í öðrum leikhluta þar sem hvort liðið um sig náði tveimur áhlaupum. Keflvíkingar komust mest átta stigum yfir um miðjan annan leikhluta en KR náði þá vopnum sínum, nagaði forskotið niður og átti lokaorðið til að komast einu stigi yfir í hálfleik 51-50. Í seinni hálfleik var sagan allt önnur. Keflvíkingar byrjuðu mun betur og skoruðu fyrstu sjö stigin og þegar fimm mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta var staðan 3-13 fyrir gestina og manni fannst eins og að fjallið væri orðið ansi bratt fyrir KR að klífa. Keflvíkingar fenguiðka sinn skóla af körfuknattleik, náðu að hægja á leiknum og fengu tækifæri til að setja upp sóknir sínar og nýta krafta turnanna sinna í teignum, Williams og Milka. KR treysti á framlag Tyler Sabin sem var sá eini sem hafði dug og þor til að skora gegn Keflvíkingum og úr varð að Keflvíkingar leiddu með 10 stigum fyrir lokaleikhlutann. Þar skiptust liðin á að skora en þegar KR náði að stoppa og skora hinum megin gerði Keflavík það líka og því náði KR ekki áhlaupinu sem sárlega vantaði til að gera þennan leik spennandi í lokafjórðungnum. Keflvíkingar náðu síðan fleiri stoppum í lok leiksins sem varð til þess að munurinn endaði í 24 stigum sem menn eru væntanlega ekki sáttir með í Vesturbæ Reykjavíkur. Leikurinn endaði 74-98 og Keflvíkingar tylltu sér á topp deildarinnar að loknum átta umferðum. Afhverju vann Keflavík? Keflvíkingar náðu að nýta sína styrkleika betur í kvöld. Hægðu á leiknum í seinni hálfleik og spiluðu stífan varnarleik með Deane Williams fremstan í flokki en kappinn varði þrjú skot, breytti ansi mörgum þeirra og stal tveimur boltum og var duglegur í frákastabaráttunni. Keflvíkingar náðu að loka á alla leikmenn KR en Tyler Sabin var sá eini með lífsmarki og menn verða að telja að hann hafi átt erfiðan dag þrátt fyrir að hafa skorað 25 stig. Bestir á vellinum? Milka og Williams. Það er ekki flókið. Dominykas Milka skoraði 22 stig og hirti 19 fráköst á meðan Williams skoraði 22 stig og hirti átta fráköst ásamt tölfræðinni sem talin var upp í síðasta lið. Allir byrjunarliðsmenn Keflavíkur komust yfir 10 stig og vara menn liðsins hjálpuðu síðan með því að setja niður nokkur risastór skot á mikilvægum augnablikum í leiknum. Tyler Sabin var bestur í liði KR en hann skoraði 25 stig en saknaði sárlega að fá ekki meiri hjálp frá sínum mönnum. Tölfræði sem vekur athygli. Tyler Sabin skoraði 56,5% stiga KR í seinni hálfleik og 33,7% stiga þeirra í heild. Í þriðja leikhluta þegar Keflvíkingar náðu völdum á leiknum þá skoraði KR 14 stig í leikhlutanum og Sabin skoraði 11 þeirra. KR saknaði augljóslega framlags frá fleiri leikmönnum en lið spila oft ekki betur en andstæðingurinn leyfir. Að auki er vert að minnast á tölfræði sem sýnir hæðarmun liðanna en KR tók 28 fráköst í leiknum á móti 49 fráköstum Keflvíkinga en sá munur er allt of mikill en lítið hægt að gera í því. Hvað næst? KR fer til Grindavíkur á mánudaginn en þar mætast tvö lið sem töpuðu í kvöld og því verður spennandi að sjá hvoru liðinu tekst að kvitta fyrir leik sinn í kvöld. Keflavík fær í heimsókn Tindastól sem hefur verið á ágætis skriði en sigur þar sendir skýr merki um getu Keflvíkinga en lið Stólanna er líkara Keflvíkingum en KR. Helgi Magg.: Eigum alveg að geta unnið þá KR-ingar voru sýnilega svekktir með úrslitin í leik sínum á móti Keflavík fyrr í kvöld en þeir töpuðu leiknum með 24 stiga mun sem væntanlega er allt of mikill munur fyrir lið eins og KR á heimavelli. Helgi Magnússon var tekinn tali eftir leik og spurður að því hvað KR hefði getað gert meira til að vinna leikinn eða allavega halda þessu innan skynsamlegra marka. „Mér fannst við verða dálítið einhæfir í seinni hálfleik. Við framkvæmdum okkar leik ekki vel sóknarleg og vörnin hélt ekki í seinni hálfleik. Ég meina við skorum 24 stig í seinni hálfleik og við vinnum ekki leiki með þetta lið ef við skorum ekki meira en það.“ KR er með lágvaxið lið og hafa verið að keyra upp hraðann í leikjum sínum til að ná árangri. Hann var spurður að því hvort það hafi skilið á milli, þ.e. að ráða hraðanum í leiknum og hvort það sé ekki erfitt að eiga við lið eins og Keflavík þegar þeir eru miðherja lausir. „Keflvíkingar stýrðu hraðanum mjög vel í seinni hálfleik og við að sama skapi féllum niður og náðum ekki upp neinu tempó-i og það er sá leikur sem við þurfum að spila núna ef við ætlum að vinna lið og Keflvíkingar eru með þrusu lið og það er ástæða fyrir því að þeir verma toppsætið. Þeir voru bara betri en við í kvöld.“ „Það gekk ágætlega í fyrri hálfleik að spila án miðherja í fyrri hálfleik þannig að ég ætla ekki að kvarta undan því en það væri næs að fá einn stóran til að slást við þessa kalla en svona er bara staðan. Við erum með hörkulið og hefðum alveg getað unnið þá.“ Milka: KR er með frábært lið Dominykas Milka talaði um það í viðtali eftir síðasta leik að hann ætti eftir að vinna KR og var því spurður út í ánægjuna af því að vinna þá loksins í kvöld. „Mjög ánægður með þetta. KR er með frábært lið. Meistarakandídatar sem spila af hörku, hitta vel og því frábært fyrir okkur að vinna leikinn. Sérstaklega er það ánæglulegt að vinna þá á útivelli.“ Keflvíkingar héldu KR í 24 stigum í seinni hálfleik og var Milka sammála blaðamanni að ákafi í varnarleiknum hafi verið það sem skildi liðin að í kvöld. „Í fyrri hálfleik hittu þeir vel þannig að við þurftum að bregðast við í hálfleik. Þeir hafa margar góðar skyttur og hreyfa boltann mjög vel þannig að hjá okkur þurftum við bara að láta þá senda eina sendingu í viðbót og sjá til þess að ná frákastinu. Það er lík mikilvægt að ná valdi á hraða leiksins en þeir eru með lið sem vill hlaupa og skjóta (e. run and gun) og eru klókir körfuboltamenn sem spila mjög fast. Í fyrri hálfleik reyndum við að hlaupa með þeim en í seinni hálfleik gekk okkur betur að komast í okkar leik og komast í teiginn þar sem okkur líður best ásamt því að ná að koma boltanum aftur út á skytturnar okkar en það tókst ekki í fyrri hálfleik.“ Það er stutt í landsleikjahléið og Milka er þannig íþróttamaður að hann vill komast í lyftingasalinn til að halda sér við. Hann var spurður að því að lokum hvernig skrokkurinn væri á þessum tímapunkti. „Hann er fínn. Ég er spenntur fyrir hléinu því ég næ ekki að undirbúa mig eins og ég vil í lyftingasalnum fyrir leiki vegna þess hve margir leikir eru og maður verður að finna tíma til að hvíla sig. Þetta verða tvær vikur sem ég verð að nýta vel til að undirbúa mig undir seinni hlutann.“ Dominos-deild karla KR Keflavík ÍF
Það var beðið með eftirvæntingu eftir leik KR og Keflavíkur sem fram fór í DHL-höllinni fyrr í kvöld. Þetta var stórleikur 8. umferðar Dominos-deildar karla og þarna mættust tveir skólar af körfubolta sem fróðlegt var að fylgjast með. Í fyrri hálfleik var það skólinn sem KR aðhyllist sem fékk sviðsljósið en þeim finnst best að spila hratt og skjóta mikið og hafa sigurleikir þeirra komið þegar þeim hefur tekist það. Keflvíkingar reyndu sig við að hlaupa með þeim og úr varð fínasta skemmtun þar sem varnarleikurinn var í öðru sæti en liðin skiptust á að skora á löngum köflum fyrsta leikhluta en skiptu síðan um gír í öðrum leikhluta þar sem hvort liðið um sig náði tveimur áhlaupum. Keflvíkingar komust mest átta stigum yfir um miðjan annan leikhluta en KR náði þá vopnum sínum, nagaði forskotið niður og átti lokaorðið til að komast einu stigi yfir í hálfleik 51-50. Í seinni hálfleik var sagan allt önnur. Keflvíkingar byrjuðu mun betur og skoruðu fyrstu sjö stigin og þegar fimm mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta var staðan 3-13 fyrir gestina og manni fannst eins og að fjallið væri orðið ansi bratt fyrir KR að klífa. Keflvíkingar fenguiðka sinn skóla af körfuknattleik, náðu að hægja á leiknum og fengu tækifæri til að setja upp sóknir sínar og nýta krafta turnanna sinna í teignum, Williams og Milka. KR treysti á framlag Tyler Sabin sem var sá eini sem hafði dug og þor til að skora gegn Keflvíkingum og úr varð að Keflvíkingar leiddu með 10 stigum fyrir lokaleikhlutann. Þar skiptust liðin á að skora en þegar KR náði að stoppa og skora hinum megin gerði Keflavík það líka og því náði KR ekki áhlaupinu sem sárlega vantaði til að gera þennan leik spennandi í lokafjórðungnum. Keflvíkingar náðu síðan fleiri stoppum í lok leiksins sem varð til þess að munurinn endaði í 24 stigum sem menn eru væntanlega ekki sáttir með í Vesturbæ Reykjavíkur. Leikurinn endaði 74-98 og Keflvíkingar tylltu sér á topp deildarinnar að loknum átta umferðum. Afhverju vann Keflavík? Keflvíkingar náðu að nýta sína styrkleika betur í kvöld. Hægðu á leiknum í seinni hálfleik og spiluðu stífan varnarleik með Deane Williams fremstan í flokki en kappinn varði þrjú skot, breytti ansi mörgum þeirra og stal tveimur boltum og var duglegur í frákastabaráttunni. Keflvíkingar náðu að loka á alla leikmenn KR en Tyler Sabin var sá eini með lífsmarki og menn verða að telja að hann hafi átt erfiðan dag þrátt fyrir að hafa skorað 25 stig. Bestir á vellinum? Milka og Williams. Það er ekki flókið. Dominykas Milka skoraði 22 stig og hirti 19 fráköst á meðan Williams skoraði 22 stig og hirti átta fráköst ásamt tölfræðinni sem talin var upp í síðasta lið. Allir byrjunarliðsmenn Keflavíkur komust yfir 10 stig og vara menn liðsins hjálpuðu síðan með því að setja niður nokkur risastór skot á mikilvægum augnablikum í leiknum. Tyler Sabin var bestur í liði KR en hann skoraði 25 stig en saknaði sárlega að fá ekki meiri hjálp frá sínum mönnum. Tölfræði sem vekur athygli. Tyler Sabin skoraði 56,5% stiga KR í seinni hálfleik og 33,7% stiga þeirra í heild. Í þriðja leikhluta þegar Keflvíkingar náðu völdum á leiknum þá skoraði KR 14 stig í leikhlutanum og Sabin skoraði 11 þeirra. KR saknaði augljóslega framlags frá fleiri leikmönnum en lið spila oft ekki betur en andstæðingurinn leyfir. Að auki er vert að minnast á tölfræði sem sýnir hæðarmun liðanna en KR tók 28 fráköst í leiknum á móti 49 fráköstum Keflvíkinga en sá munur er allt of mikill en lítið hægt að gera í því. Hvað næst? KR fer til Grindavíkur á mánudaginn en þar mætast tvö lið sem töpuðu í kvöld og því verður spennandi að sjá hvoru liðinu tekst að kvitta fyrir leik sinn í kvöld. Keflavík fær í heimsókn Tindastól sem hefur verið á ágætis skriði en sigur þar sendir skýr merki um getu Keflvíkinga en lið Stólanna er líkara Keflvíkingum en KR. Helgi Magg.: Eigum alveg að geta unnið þá KR-ingar voru sýnilega svekktir með úrslitin í leik sínum á móti Keflavík fyrr í kvöld en þeir töpuðu leiknum með 24 stiga mun sem væntanlega er allt of mikill munur fyrir lið eins og KR á heimavelli. Helgi Magnússon var tekinn tali eftir leik og spurður að því hvað KR hefði getað gert meira til að vinna leikinn eða allavega halda þessu innan skynsamlegra marka. „Mér fannst við verða dálítið einhæfir í seinni hálfleik. Við framkvæmdum okkar leik ekki vel sóknarleg og vörnin hélt ekki í seinni hálfleik. Ég meina við skorum 24 stig í seinni hálfleik og við vinnum ekki leiki með þetta lið ef við skorum ekki meira en það.“ KR er með lágvaxið lið og hafa verið að keyra upp hraðann í leikjum sínum til að ná árangri. Hann var spurður að því hvort það hafi skilið á milli, þ.e. að ráða hraðanum í leiknum og hvort það sé ekki erfitt að eiga við lið eins og Keflavík þegar þeir eru miðherja lausir. „Keflvíkingar stýrðu hraðanum mjög vel í seinni hálfleik og við að sama skapi féllum niður og náðum ekki upp neinu tempó-i og það er sá leikur sem við þurfum að spila núna ef við ætlum að vinna lið og Keflvíkingar eru með þrusu lið og það er ástæða fyrir því að þeir verma toppsætið. Þeir voru bara betri en við í kvöld.“ „Það gekk ágætlega í fyrri hálfleik að spila án miðherja í fyrri hálfleik þannig að ég ætla ekki að kvarta undan því en það væri næs að fá einn stóran til að slást við þessa kalla en svona er bara staðan. Við erum með hörkulið og hefðum alveg getað unnið þá.“ Milka: KR er með frábært lið Dominykas Milka talaði um það í viðtali eftir síðasta leik að hann ætti eftir að vinna KR og var því spurður út í ánægjuna af því að vinna þá loksins í kvöld. „Mjög ánægður með þetta. KR er með frábært lið. Meistarakandídatar sem spila af hörku, hitta vel og því frábært fyrir okkur að vinna leikinn. Sérstaklega er það ánæglulegt að vinna þá á útivelli.“ Keflvíkingar héldu KR í 24 stigum í seinni hálfleik og var Milka sammála blaðamanni að ákafi í varnarleiknum hafi verið það sem skildi liðin að í kvöld. „Í fyrri hálfleik hittu þeir vel þannig að við þurftum að bregðast við í hálfleik. Þeir hafa margar góðar skyttur og hreyfa boltann mjög vel þannig að hjá okkur þurftum við bara að láta þá senda eina sendingu í viðbót og sjá til þess að ná frákastinu. Það er lík mikilvægt að ná valdi á hraða leiksins en þeir eru með lið sem vill hlaupa og skjóta (e. run and gun) og eru klókir körfuboltamenn sem spila mjög fast. Í fyrri hálfleik reyndum við að hlaupa með þeim en í seinni hálfleik gekk okkur betur að komast í okkar leik og komast í teiginn þar sem okkur líður best ásamt því að ná að koma boltanum aftur út á skytturnar okkar en það tókst ekki í fyrri hálfleik.“ Það er stutt í landsleikjahléið og Milka er þannig íþróttamaður að hann vill komast í lyftingasalinn til að halda sér við. Hann var spurður að því að lokum hvernig skrokkurinn væri á þessum tímapunkti. „Hann er fínn. Ég er spenntur fyrir hléinu því ég næ ekki að undirbúa mig eins og ég vil í lyftingasalnum fyrir leiki vegna þess hve margir leikir eru og maður verður að finna tíma til að hvíla sig. Þetta verða tvær vikur sem ég verð að nýta vel til að undirbúa mig undir seinni hlutann.“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum