Samkvæmt frumvarpinu verða stærðir og tegundir leyfilegra neysluskammt útfærðar í reglugerð. Í greinargerð segir að fíkniefnamarkaðurinn sé síbreytilegur og því sé brýnt að geta brugðist við og bætt við efnum án þess að til lagabreytinga þurfi að koma.
Lagt er til að sett verði á laggirnar notendasamráð þar sem fulltrúar velferðarþjónustu, lögreglunnar, heilbrigðisráðuneytis og frjálsra félagasamtaka munu eiga sæti. Ráðinu verður gert að leggja mat á og gera tillögur um hvaða magn fíkniefna getur talist til eigin nota samkvæmt lögunum.
Í greinargerð frumvarpsins er vísað í tölfræði frá lögreglunni um að á árunum 2005 til 2018 hafi verið framin 26.807 fíkniefnabrot hér á landi. Þar af voru 19.689 brot vegna vörslu og meðferðar fíkniefna. Það gerir 73 prósent allra fíkniefnabrota og í greinargerð segir að sú tali muni líklega lækka umtalsvert verði frumvarpið samþykkt.

Frumvarpið byggir að hluta á fyrri frumvörpum Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, um sama efni og einnig er stuðst við umsagnir sem bárust um þau.
Í greinargerð segir að það sé stefna stjórnvalda að meðhöndla eigi vanda vímuefnanotenda í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna. Leggja eigi fremur áherslu á forvarnir og lýðheilsu.
Heilbrigðisráðherra staðfesti í vikunni reglugerð um neyslurými og sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við fréttastofu að samþykkt á frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta myndi greiða fyrir rekstri á þeirri starfsemi.