Handbolti

„Hvað getur maður eigin­lega sagt eftir svona frammi­stöðu?”

Andri Már Eggertsson skrifar
Gunnar segir sína menn ekki hafa verið tilbúnir andlega í kvöld.
Gunnar segir sína menn ekki hafa verið tilbúnir andlega í kvöld. vísir/hulda margrét

Valur kjöldróg Aftureldingu í Origo höllinni í kvöld. Valur komst snemma leiks fimm mörkum yfir og litu aldrei um öxl eftir það. Leikurinn endaði með 30 -21 sigri heimamanna.

„Hvað getur maður eiginlega sagt eftir svona frammistöðu? Við mættum ekki til leiks í fyrri hálfleik, ég get leikgreint það hvernig sem er, það einfaldlega gekk ekkert upp,” sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.

Valur byrjaði leikinn talsvert betur og þurfti Gunnar að taka leikhlé snemma leiks þegar staðan var orðin 8 - 3 eftir tæplega 11 mínútna leik.

„Það sem við lögðum upp með fyrir leik var engann vegin að skila sér inn á vellinum, hvorki varnar né sóknarlega og ofan á það fengum við enga markvörslu.”

„Strákarnir voru ekki tilbúnir andlega í þennan leik, hvernig sem þú leikgreinir það í smáatriðum sem liðið gerði inn á vellinum, ef þú ert ekki tilbúinn í slaginn þá breytir engu máli hvað þú gerir inná vellinum,” sagði Gunnar svekktur með hugafarið í sínu liði.

Gunnar óskaði eftir að liðið myndi sína barráttu í seinni hálfleik sem liðið gerði ágætlega ásamt því að fá markvörslu en það er lítið upp úr því að hafa fyrir Aftureldingu þar sem sigur Vals var í höfn í hálfleik.

„Við ræddum um það fyrir leik að Valsmenn myndu mæta með óbragð í munni eftir seinustu leiki og við yrðum að vera klárir í þá barráttu sem því myndi fylgja sem engan veginn gerðist,” sagði Gunnar að lokum um hvað menn læra eftir svona tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×