Skoðun

VR á að vera í for­ystu í um­hverfis­málum

Helga Guðrún Jónasdóttir skrifar

Umhverfismál og loftlagsbreytingar eru mikilvægustu málefni samtímans og VR sem stærsta stéttarfélag landsins á að vera meðal þeirra sem hafa forystu í þeim málum. Undir núverandi stjórn VR virðist lítill áhugi vera á málaflokknum, sem sannarlega hefur áhrif á velferð allra og eru til dæmis vandfundnar upplýsingar um stöðu umhverfismála og loftlagsbreytinga á heimasíðu VR í dag og þarf VR sannarlega að bæta þar um betur.

VR hefur með aðild sinni að ASÍ tekið þátt í frábæru starfi samtaka launafólks í umhverfis- og loftlagsmálum, þar má geta að ASÍ á fulltrúa í Loftlagsráði, en meginhlutverk þess er að veita stjórnvöldum aðhald með faglegri ráðgjöf um loftlagsmál. Ber að fagna því.

Ein af lykiláherslum samtaka launafólks í þessum mikilvæga málaflokki snýr að réttlátum umskiptum sem snýr að þeim kostnaði sem umskiptin úr ósjálfbæru í sjálfbært samfélag leiðir óhjákvæmilega af sér. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins eiga að vera leiðandi í að móta breytingar á samfélaginu með það að markmiði að tryggja víðtæka samstöðu um leiðir til að mæta áskorunum framtíðar, tryggja meiri jöfnuð og afkomuöryggi fyrir alla.

Loftlagsbreytingar hafa þegar haft víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf, lífskjör og afkomu almennings um allan heim og forsendur breytinga er þátttaka og samvinna en þar hefur VR mikilvægu hlutverki að gegna.

Að mínu mati er nauðsynlegt að VR leggi, sem stærsta og öflugasta stéttarfélagið, allt það afl sem það getur til þessa mikilvæga málaflokks. Að ná kolefnishlutleysi árið 2040 er risavaxið verkefni sem allir þurfa að leggjast á eitt um að leysa – strax!

Höfundur er stjórnmála- og fjölmiðlafræðingur og býður sig fram til formanns VR.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×