Fótbolti

Talið að Zlatan snúi aftur í sænska lands­liðið síðar í mánuðinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefnir allt í að Zlatan muni klæðast gulu treyju sænska landsliðsins á nýjan leik.
Stefnir allt í að Zlatan muni klæðast gulu treyju sænska landsliðsins á nýjan leik. EPA/PETER POWELL

Aftonbladet í Svíþjóð greinir frá því í dag að Zlatan Ibrahimović verði í landsliðshópi Svíþjóðar sem hefur leik í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í Katar þann 25. mars næstkomandi.

Aftonbladet vitnar reyndar í vefsíðuna Footballdirekt. Samkvæmt heimildum vefsíðunnar er talið öruggt að hinn 39 ára Zlatan verði í landsliðshópnum sem valinn verður fyrir komandi verkenfi. Þar mun Svíþjóð mæta Georgíu og Kósóvó í undankeppni HM sem og liðið mætir Eistlandi í æfingaleik.

Orðrómar þess efnis að Zlatan muni leika aftur fyrir sænska landsliðið hafa verið háværir undanfarið en hvorki leikmaðurinn né Janne Andersson, landsliðsþjálfari Svía hafa staðfest orðróminn.

Stefan Pettersson, framkvæmdastjóri sænska landsliðsins, segir það í höndunum á Janne að velja hópinn og hann verði birtur þann 18. mars.

Zlatan - sem er nú í herbúðum AC Milan á Ítalíu, í annað sinn á ferlinum - á alls að baki 116 leiki fyrir Svíþjóð. Í þeim skoraði hann 62 mörk. Það má fastlega reikna með því að leikirnir, og mörkin, verði fleiri, ef hann verður í hópnum þann 18. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×