Fótbolti

Löw hættir með þýska landsliðið eftir EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joachim Löw gerði Þjóðverja að heimsmeisturum 2014.
Joachim Löw gerði Þjóðverja að heimsmeisturum 2014. GETTY/Laurence Griffiths

Joachim Löw hættir sem þjálfari þýska karlalandsliðsins í fótbolta eftir EM í sumar. Hann hefur stýrt Þjóðverjum frá 2006.

Löw stýrir Þjóðverjum í fyrri leiknum gegn Íslendingum í undankeppni HM 2022 í Duisburg 25. mars.

Í seinni leik Íslands og Þýskalands á Laugardalsvellinum 8. september verður hins vegar nýr maður við stjórnvölinn hjá þýska liðinu.

Samningur Löws við þýska knattspyrnusambandið átti að renna út eftir HM 2022 en hann óskaði eftir því að hætta eftir EM í sumar.

Löw var aðstoðarmaður Jürgens Klinsmann með þýska landsliðið á árunum 2004-06 og tók svo við liðinu eftir HM í Þýskalandi 2006.

Undir stjórn Löws urðu Þjóðverjar heimsmeistarar 2014. Þeir lentu í 3. sæti á HM 2010 og 2. sæti á EM 2008. Þýskaland komst einnig í undanúrslit EM 2012 og 2016. Þjóðverjar ollu hins vegar miklum vonbrigðum á HM 2018 þar sem þeir komust ekki áfram upp úr sínum riðli og féllu svo úr A-deild Þjóðadeildarinnar í fyrra.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur meðal annarra verið orðaður við starf landsliðsþjálfara Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×