Sjóðnum er ætlað að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslunum og veitingahúsum í Reykjavík en félagsmálaráðuneytið mun einnig styrkja verkefnið um 2 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
„Römpum upp Reykjavík“ var ýtt úr vör í Iðnó í dag, á degi aðgengis fyrir alla. Þar tóku til máls Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og hvatamaður að stofnun sjóðsins.

Byrjað verður í miðborg Reykjavíkur þar sem elstu húsin eru og aðgengið verst. Ráðgert er að sjóðurinn veiti styrki fyrir allt að 80% af kostnaði við gerð rampa eða upphækkana að verslunum og veitingastöðum.
„Ég þekki það manna best að ætla að sækja einhvern viðburð, fara á veitingastað eða einfaldlega í verslun sem er mér ekki aðgengileg. Mörgum rekstraraðilum hefur reynst kostnaðurinn fyrirstaða því oft er um viðkvæman rekstur að ræða og því mikilvægt að tryggja aðgengi að fjármagni. Því er ég mjög stoltur af þessu verkefni og þakklátur öllum þeim sem hafa ákveðið að leggja Römpum upp Reykjavík lið,“ er haft eftir Haraldi í tilkynningu um verkefnið.