Innlent

Var ekki að brjótast inn heldur að reyna að komast út

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Upp úr klukkan hálffimm í morgun barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um yfirstandandi innbrot í verslun í Kópavogi.

Var ein manneskja inni í búðinni þegar lögregla kom á vettvang. Í ljós kom að hún hafði sofnað inni á salerni fyrr um kvöldið og var svo læst inni í búðinni. Þegar hún reyndi að komast út fór öryggiskerfi verslunarinnar í gang.

Þá var lögreglu tilkynnt um líkamsárás í Árbæ upp úr klukkan tvö í nótt. Að því er segir í dagbók var hinn grunaði handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Um klukkan hálftvö í nótt var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi sem var að valda truflun og raska svefnfrið nágranna en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvar þetta nákvæmlega var í bænum.

Maðurinn fór ekki að ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að láta af háttseminni og var hann handtekinn og færður í fangaklefa.

Þá var tilkynnt um fjóra þjófnaði í verslunum. Tilkynnt var um þjófnað í hverfi 108 síðdegis í gær og voru tveir menn á vettvangi þegar lögreglumenn komu á staðinn. Var málið afgreitt með skýrslutöku á staðnum.

Skömmu fyrir klukkan hálfsex var svo tilkynnt um þjófnað í verslun í hverfi 103. Reyndist gerandinn vera á barnsaldri og var málið því leyst með aðkomu foreldra og barnaverndar.

Rúmlega eitt í nótt var svo tilkynnt um annan þjófnað í verslun í hverfi 108. Gerandi var á staðnum þegar lögregla kom og var málið afgreitt með skýrslutöku á vettvangi.

Klukkan hálffimm í morgun var tilkynnt um mann grunaðan um þjófnað úr sólarhringsverslun. Var það mál líka afgreitt með vettvangsskýrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×