„Við skiljum alveg áhuga fólks á að fara þarna og sjá þetta eldgos og þetta er náttúrlega það sem við þekkjum í gegnum tíðina, fólk hefur gríðarlegan áhuga á þessu og vill komast sem næst og við viljum náttúrlega gera fólki kleift að komast á staðinn og sjá þetta. En á sama tíma þá verðum við líka að segja fólki hverjar hætturnar eru og að biðla til þeirra að fara varlega og passa sig,“ sagði Rögnvaldur í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Miðað við þessar myndir sem að maður hefur séð þá finnst manni kannski fólk vera komið full nálægt þessu,“ segir Rögnvaldur. Því sé mikilvægt að fræða fólk um hætturnar sem til staðar eru.
„Það er sú leið sem við viljum fara og það er náttúrlega ekki ógurlega spennandi kostur að vera að stilla upp einhverri löggæslu þarna eða einhverjum skiltum. Við erum búin að leggja línurnar um hvernig er hægt að komast á staðinn og hvað þarf að hafa í huga. Hætturnar eru þekktar, það geta brotist út nýjar línur úr hrauninu og þær geta farið hratt, það getur losnað úr veggjunum á þessum gígum, þeir geta losnað niður og þá gusast innihaldið í þá átt þar sem það opnast og ef að fólk er of nálægt þá getur það fengið þetta á sig. Sama á við ef hraunið er að renna yfir þar sem er bleyta, þá geta orðið gufusprengingar og þetta eru allt hættur sem eru þekktar,“ útskýrir Rögnvaldur.
Líkt og fram hefur komið þykja upptök eldgossins vera á nokkuð heppilegum stað þar sem gosið ógnar hvorki byggð né innviðum á borð við rafmagn eða samgöngumannvirki. „En fólk getur verið í hættu ef það fer ekki varlega,“ segir Rögnvaldur.
Páll Einarsson sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að líklega væri að hefjast nýtt kvikuskeið á Reykjanesskaga og að líklega megi búast við fleiri eldgosum í náinni framtíð.
Erum við tilbúin til að mæta þessu?
„Það er verið að vinna í því á fullu. Það er verið að kortleggja alla innviðina á svæðinu, hvaða innviðir geta verið í hættu eftir því hvar verður eldgos og hvernig er hægt að bregðast við og þetta erum við að vinna við á fullu,“ segir Rögnvaldur.