Þetta segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. Ástæðan fyrir því að ekki er ráðlagt að vera á svæðinu seinni partinn er að það á að lægja svolítið vel.
„Og ef vindur fer undir fimm metra á sekúndu á svæðinu þá eru miklar líkur á að það geti safnast vel fyrir í dældinni þarna,“ segir Bryndís.
Hún leggur áherslu á að um spá sé að ræða, spurningin sé svo hvort hún gangi eftir.
„Ef fólk myndi ekki fara niður í dalinn þá gæti sloppið að vera uppi á hryggjunum en maður þyrfti að hafa varann á,“ segir hún. Þannig ætti fólk ekki að fara niður að hrauninu heldur horfa niður á gosið af hryggjunum í kring.
Aðspurð um stöðuna næstu daga segir Bryndís að miðað við spána sé morgundagurinn ekki alveg nógu góður; hann líti svipað út og seinni parturinn í dag.