Fótbolti

Eyjaævintýri í Afríkukeppni landsliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landslið Kómoreyja fagnar hér stórri stund í gær þegar liðið tryggði sér sæti í Afríkukeppni landsliða.
Landslið Kómoreyja fagnar hér stórri stund í gær þegar liðið tryggði sér sæti í Afríkukeppni landsliða. Twitter/@fedcomfootball

Eyríkið Kómorur tryggði sér í gær sæti í úrslitakeppni Afríkukeppni landsliða í knattspyrnu.

Landslið Kómoreyja innsiglaði sæti sitt með því að gera jafntefli við Tógó. Egyptaland og Gabon tryggðu sig líka áfram í gær og alls eru átta þjóðir komnar með farseðilinn í úrslitakeppnina á næsta ári.

Kómoreyjar, eða Comoro Islands eins og nafn eyríkisins er á ensku, er samansafn eyja á milli Afríku og Madagascar við austurströnd Afríku. Það búa undir níu hundruð þúsund manns á eyjunum en þær hafa hingað til ekki verið þekktar fyrir árangur sinn í knattspyrnu.

Uppkoma Kómora má að vissu leyti rekja til tengsla þeirra til Frakklands. Liðið hefur styrkt sig með leikmönnum úr Kómora-samfélaginu í Frakklandi.

Liðið lagði grunninn að árangri sínum með því að vinna 1-0 sigur á Tógó í nóvember 2019 í fyrsta leik undankeppninnar. Fjórum dögum síðar náðu Kómorar síðan jafntefli á móti Egyptalandi. Stigið í gær þýðir að Kenía getur ekki komist upp fyrir liðið þar sem Kómarar eru með betri stöðu í innbyrðis leikjum.

„Ég get ekki lýst því hversu mikið þjóðarstoltið mitt er. Húrra fyrir leikmönnum mínum, starfsliðinu, sambandinu og takk forseti. Svo auðvitað stórar þakkir til okkar ótrúlegu stuðningsmanna. Saman skrifuðum við söguna. Sjáumst í úrslitakeppninni,“ sagði þjálfarinn Amir Abdou á Twitter.

Liverpool maðurinn Mohamed Salah lék með Egyptum í fyrsta sinn síðan 2019 en liðið tryggði sig inn í úrslitakeppnina með 1-1 jafntefli á móti Kenía í Nairobi.

Arsenal maðurinn Pierre-Emerick Aubameyang skoraði eitt marka Gabon í 3-0 sigri á Kóngó en með því tryggði Gabon sér sæti í úrslitakeppninni.

Átta þjóðir hafa nú tryggt sér sæti í úrslitakeppni Afríkumótsins sem fer fram í Kamerún í janúar á næsta ári. Það eru auk fyrrnefndra þriggja liða, gestgjafar Kamerún, meistarar Alsír, Búrkína Fasó, Gínea, Malí, Senegal og Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×