Handbolti

Hand­knatt­leiks­sam­band Ís­lands hefur óskað eftir undan­þágum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
HSÍ hefur beðið um undanþágu svo íslenska kvennalandsliðið geti til að mynda undirbúið sig fyrir umspilið gegn Slóveníu í næsta mánuði.
HSÍ hefur beðið um undanþágu svo íslenska kvennalandsliðið geti til að mynda undirbúið sig fyrir umspilið gegn Slóveníu í næsta mánuði. EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI

HSÍ hefur óskað eftir undanþágum er varðar sóttvarnarreglur landsins. Undanþágan er ætluð meistaraflokkum karla og kvenna í handbolta sem og kvennalandsliðinu en það á leik við Slóveníu í undankeppni HM í næsta mánuði.

Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Handbolti.is fyrr í dag. Þar segir einnig að HSÍ hafi sent inn fyrirspurn vegna vinnustaðarsóttkvíar fyrir kvennalandsliðið þar sem síðari viðureignin gegn Slóveníu á að fara fram þann 21. apríl hér á landi.

„Það er til heimild til að gera undanþágu til æfinga vegna alþjóðlegra verkefna landsliða. Kvennalandsliðið er svo sannarlega á leiðinni í eitt slíkt eftir miðjan apríl þar sem sem farseðill á heimsmeistaramótið verður í boði fyrir sigurliðið,“ sagði Róbert Geir í viðtalinu við Handbolti.is.

Íslenska kvennalandsliðið og þjálfarateymi eru sem stendur í sóttkví eftir góða ferð landsliðsins til Norður-Makedóníu. Þar var leikur í umspili gegn Slóveníu tryggður þó svo að það hafi kostað sitt. Fyrirliðinn Steinunn Björnsdóttir og Sunna Jónsdóttir meiddust báðar illa. 

síðarnefnda stefnir á að vera með gegn Slóveníu en Steinunn er talin hafa slitið krossband og verður því frá næstu mánuði.

„Verðum að koma landsliðinu á æfingar sem allra fyrst. Ef félagslið mega ekki æfa þá verður HSÍ að gera allt sem hægt er til að halda landsliðskonunum sínum við efnið fyrir leikina mikilvægu við Slóvena,“ sagði framkvæmdastjórinn einnig.

Vinnustaðasóttkví hefur heppnast vel hér á landi. Til að mynda þegar karlalandslið Litáen kom hingað til lands í nóvember og svo Portúgal í byrjun árs. Róbert Geir staðfesti þó að lokum í viðtalinu að HSÍ hefði ekki enn fengið svör við fyrirspurnum sínum.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.HSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×