Innlent

Opið fyrir umferð að gossvæðinu og bílastæðum bætt við

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Eldgos í Geldingadöluml á Reykjanesi.
Eldgos í Geldingadöluml á Reykjanesi. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur opnað fyrir umferð um Suðurstrandarveg að gossvæðinu í Geldingadölum.

Ákvörðun um opnun var tekin á fundi aðgerðarstjórnar klukkan níu í morgun.

„Vegagerðin er búin að skafa Suðurstrandarveginn, nýbúin að því. Hann er orðinn greiðfær. Svo erum við komin með tilbúin bílastæði, skammt frá upphafsstað gönguleiðar að gosstöðvunum sem ætti að taka nokkuð hundruð bíla þannig að veðurspáin er góð og öll skilyrði fyrir opnun eru góð,“ sagði Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Umferðarstjórn verður við bílastæðin.

Útlit fyrir ágætis veður

Lögreglan lokaði fyrir umferð að svæðinu klukkan eitt í gær vegna vonskuveðurs. Útlit er fyrir ágætis veður við gosstöðvarnar í dag þó búast megi við kulda og stöku éljum. Upp úr hádegi gæti orðið töluverð gassöfnun áður en vindur snýr sér til norðurs og er fólki bent á að halda sig ofarlega í hlíðunum við gosið eða upp á hryggjunum.

Líkt og áður segir var lokað fyrir umferð að svæðinu í gær og nótt. Gunnar segir að lítið hafi verið um að fólk hafi reynt að komast inn á svæðið þrátt fyrir lokun.

„Það voru einstök tilfelli, einn eða tveir sem reyndu það,“ segir Gunnar og bætir við að þeim hafi verið vísað af svæðinu.

Lögreglan hvetur þá, sem ætla að svæðinu, til að vera vel búna.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×