Vaxandi spennu hefur gætt í norður-írsku samfélagi að undanförnu vegna áhrifa útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á breska yfirráðasvæðið á Írlandi og versnandi samskipta stjórnmálaflokka mótmælenda og kaþólikka sem deila völdum nauðbeygðir. Óeirðir brutust fyrst út um páskana og hafa haldið áfram í þessari viku.
Leiðtogar bæði sambandssinna og þjóðernissinna, Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, Michael Martin, forsætisráðherra Írlands, og Joe Biden Bandaríkjaforseti höfðu hvatt til stillingar en allt kom fyrir ekki. Ungir þjóðernissinnar og sambandssinnar grýttu lögreglu og hver aðra sem fyrr.
AP-fréttastofan segir að lögreglumenn í óeirðarbúningum hafi sigað hundum á óeirðarseggi og beitt vatnsbyssum til þess að dreifa mannfjöldanum eftir að ungmenni grýttu þá með öllu lauslegu.
Blóðug átök geisuðu á milli sambandssinna sem vilja halda í sambandið við Bretlands annars vegar og írskra þjóðernissinna á Norður-Írlandi um árabil. Eftir friðarsamninginn sem var kenndur við föstudaginn langa árið 1998 hefur friður að mestu ríkt fyrir utan götuskærur sem hafa blossað upp við og við.
Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu um áramótin var tekið upp tolla- og landamæraeftirlit með ákveðnum vöruflutningum á milli Norður-Írlands og Bretlands. Sambandssinnum gremst fyrirkomulagið og halda því fram að landamærum hafi verið komið upp á Írlandshafi. Óeirðir síðustu daga hafa fyrst og fremst átt sér stað í hverfum sambandssinna.