Upphaflega var áætlað að Ingenuity gæti flogið í fyrsta lagi á sunnudag. Eftir að villa kom upp við prófun á þyrli hennar á föstudag var ákveðið að fresta því fram til dagsins í dag í fyrsta lagi.
Í tilkynningu á vefsíðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA kemur fram að ýmsar mögulegar lausnir hafi verið prófaðar um helgina. Sú sem lofar bestu var að breyta og setja aftur upp flugstjórnarhugbúnað þyrilvængjunnar. Nú er unnið að því að fara yfir uppfærsluna og sannprófa hana.
Tímafrekt er að sannprófa hugbúnaðinn og hlaða honum upp til Ingenuity á Mars. Þegar því ferli hefur verið lokið á undirbúningur fyrir fyrstu flugferðina að hefjast á ný.
„Besta mat okkar á dagsetningu fyrir flugferð er fljótandi þessa stundina en við vinnum að því að ná þessum áföngum og setjum dagsetningu fyrir flugferð í næstu viku,“ segir í tilkynningu NASA.
Ingenuity er lítil þyrilvængja sem vegur innan við tvö kíló. Hún var farþegi undir kviðnum á könnunarjeppanum Perseverance sem lenti á Mars í febrúar. Eini tilgangur hennar er að prófa flug á öðrum hnetti og eru engin vísindatæki um borð. NASA segir að vængjunni heilsist vel. Afl, samskiptakerfi og hitastjórnun er stöðug.