Körfubolti

Borche: Deildin er að verða brjáluð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
ÍR-ingar spiluðu vel gegn toppliði Keflvíkinga í kvöld.
ÍR-ingar spiluðu vel gegn toppliði Keflvíkinga í kvöld. vísir/vilhelm

Borche Ilevski, þjálfari ÍR, kvaðst sáttur með frammistöðuna gegn Keflavík en var svekktur að hún skildi ekki skila sigri gegn toppliðinu.

Keflavík vann leikinn, 109-116, eftir framlengingu. Danero Thomas jafnaði með þriggja stiga körfu þegar skammt var eftir, 100-100, en Keflavík var sterkari í framlengingunni.

„Þetta var góður leikur fyrir stuðningsmennina. Bæði lið skoruðu mikið. En við brugðumst ekki við í vörninni eins og við vildum og gerðum mistök í vagg og veltunni [e. pick and roll] með Herði Axel [Vilhjálmssyni] og [Dominykas] Milka. Keflvíkingar spila það mjög mikið, við gerðum ráðstafanir fyrir leik en á vellinum gerðist annað. Þeir skoruðu mörg stig úr þessu,“ sagði Borche við Vísi eftir leikinn.

„Við komum leiknum í framlengingu en Keflavík var einfaldlega betra liðið í kvöld.“

ÍR skoraði 109 stig gegn besta varnarliði deildarinnar í kvöld. Borche kvaðst sáttur með það en vill fara að vinna leiki.

„Við erum ánægðir með það en við þurfum að hugsa um að vinna leiki, sérstaklega þegar deildin er að verða brjáluð. Þú veist aldrei hvað gerist. Við þurfum nauðsynlega á sigri að halda og vonandi kemur hann í næsta leik,“ sagði Borche.

ÍR er núna í 9. sæti deildarinnar. Borche vonast til að sínir menn komist í úrslitakeppnina en þeir eru ekki inni í henni eins og staðan er núna.

„Ég er auðvitað áhyggjufullur en önnur lið eru líka áhyggjufull. Þetta er skrítið tímabil. Það eru nokkur lið, eins og Njarðvík, Grindavík og við, sem eru í vandræðum. Þetta er ótrúlega skrítið tímabil. En þessi leikur sýndi að við getum spilað gegn öllum í deildinni og við verðum sterkari og með meira sjálfstraust í næstu leikjum,“ sagði Borche. „En sigrar búa til sjálfstraust og okkur vantar þá.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×