Lífið

Dróninn bráðnaði í beinni út­sendingu

Atli Ísleifsson skrifar
Útsendingin var unnin í samstarfi við Björn Steinbekk og framleiðslufyrirtækið Skjáskot og var ein sú flóknasta sem ráðist hefur verið í í íslenskum óbyggðum.
Útsendingin var unnin í samstarfi við Björn Steinbekk og framleiðslufyrirtækið Skjáskot og var ein sú flóknasta sem ráðist hefur verið í í íslenskum óbyggðum.

Drónaútsendingunni á gossvæðinu við Fagradalsfjalli lauk um klukkan 6:30 í morgun eftir um tólf tíma útsendingu. Útsendingunni lauk með því að einum drónanum var flogið lágt yfir virkasta gíginn þannig að áhorfendur gátu fylgst með kvikunni í miklu návígi, og allt í beinni útsendingu. Dróninn bráðnaði svo að lokum og hrapaði ofan í sjálfan gíginn.

Notast var við fimm til sex dróna í beinu útsendingunni en einnig var sýnt eldra drónaefni af gosstöðvunum til að sýna hvernig landslagið í og við Fagradalsfjall hefur tekið breytingum síðustu vikurnar eða frá því að gosið hófst 19. mars síðastliðinn.

Útsendingin var unnin í samstarfi við Björn Steinbekk og framleiðslufyrirtækið Skjáskot og var ein sú flóknasta sem ráðist hefur verið í í íslenskum óbyggðum. Sömuleiðis var hægt að fylgjast með útsendingunni á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi.

Áhorfendur fengu að fylgjast með umbrotunum þegar tók að rökkva í gærkvöldi, og sömuleiðis þegar sólin tók að rísa í morgun. Á sama tíma var svokallað ofurtungl á himni.

Að neðan má sjá kveðjuorð Björns í morgun og þegar drónanum var svo flogið yfir gíginn þar til að hann bráðnaði og samband rofnaði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×