Innlent

Sinueldur í hrauni í Garðabæ

Atli Ísleifsson skrifar
Reykur frá eldinum sem logar í hrauninu í Garðabæ.
Reykur frá eldinum sem logar í hrauninu í Garðabæ. Aðsend

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kallað út vegna sinuelds í hrauni í Garðabæ. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði barst tilkynning um klukkan hálf þrjú, en það ku loga í og við gjótu í hrauninu, nærri svokölluðum Hádegishól.

Erfitt er að komast að eldinum, þó að þetta sé „í bakgarðinum hjá slökkviliðinu“ líkt og varðstjóri tjáði fréttastofu, og vísar þá í að eldurinn sé nærri slökkvistöðinni í Skútahrauni í Hafnarfirði.

Uppfært 16:05: Búið er að slökkva eldinn. Samkvæmt uppýsingum frá slökkviliði var slökkvistarfi lokið klukkan 15:54 og er nú unnið að frágangi á svæðinu. 

Óvissustig vegna hættu á gróðureldum er í gildi á sunnan- og vestanverðu landinu, allt frá Eyjafjöllum í austur að Snæfellsnesi í vestri. Ákvörðunin var byggð á því að lítið hefur rignt þessu svæði undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opin eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×