Handbolti

Mikill liðsheildar bragur yfir okkur

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Ágúst Þór, þjálfari Vals.
Ágúst Þór, þjálfari Vals. Vísir: Daníel

Ágúst Þór Jóhannesson, þjálfari Vals var að vonum sáttur eftir að Valskonur tryggðu sér sæti í undanúrslitum Olís-deildar kvenna með sigri á Haukum í dag. Sigur Vals var aldrei í hættu og lokatölur leiksins 22-28.

„Ég er mjög ánægður með stelpurnar. Mér fannst þær spila virkilega vel í dag. Varnarleikurinn var góður og mikil vinnusemi í mannskapnum. Við náðum að keyra vel hraðaupphlaup á þær og bættum það frá fyrri leik. Mér fannst við heilt yfir spila góðan handbolta og unnum sannfærandi sigur,“ sagði Ágúst eftir leikinn. 

Úrslitin urðu ljós á fyrstu mínútum leiksins þegar að Valskonur komust fjórum mörkum yfir, létu þær forystuna aldrei af hendi.

„Þetta var góð frammistaða hjá liðinu. Það er mikill liðsheildar bragur yfir okkur og stelpurnar eru að skila góðu hlutverki, bæði  varnarlega og sóknarlega. Það eru allir að leggja í púkkið í sókninni og margar sem eru að skora. Liðið var bara virkilega tilbúið.“

Með sigri í kvöld tryggðu Valskonur sér sæti í undanúrslitum og munu mæta Fram í næsta leik. 

„Við hvílum á morgun og svo þurfum við að æfa vel fram að leiknum og vera í standi. Við erum að mæta Fram-liðinu sem er feikilega vel mannað og öflugt. Þessi lið hafa oft spilað hörkuleiki og við þurfum að vera tilbúinn, við töpuðum illa fyrir þeim síðast. Við þurfum að nota tímann vel,“ sagði Ágúst að lokum. 


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×