Fótbolti

Benzema í franska hópnum sem fer á EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karim Benzema er í franska hópnum sem fer á EM í sumar.
Karim Benzema er í franska hópnum sem fer á EM í sumar. AP/Bernat Armangue

Franski landsliðshópurinn fyrir EM 2020 - sem fer þó fram í sumar - var tilkynntur í kvöld. Karim Benzema er í hópnum en hann hefur ekki leikið með franska landsliðinu síðan árið 2015.

Benzema hefur verið hvergi sjáanlegur undanfarin ár er Frakkar nældu í silfur á EM í Frakklandi 2016 og svo gull á HM í Rússlandi tveimur árum síðar.

Aðalástæða þess að hann hefur ekki verið valinn síðustu ár er þáttur hans í að fjárkúga Mathieu Valbuena, þáverandi félaga hans í landsliðinu, með hótunum um að birta kynlífsmyndband af Valbuena. Ekki hefur enn verið dæmt í málinu en franska landsliðið tók afstöðu með Valbuena.

Það er þangað til nú. Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, vildi ekki gefa upp hvað fór milli hans og Benzema er þeir ræddu saman nýverið um mögulegt sæti hans í liðinu.

Flest stærstu nöfn Frakklands eru í hópnum. Þar má nefna Hugo Lloris, Benjamin Pavard, Jules Kounde, Raphaël Varane, N‘Golo Kante, Paul Pogba, Kingsley Coman, Kylian Mbappé, Antoine Griezmann og Ousmane Dembélé.

Hér að neðan má sjá mögulegt byrjunarlið Frakklands á EM í sumar og leikmannahópinn sem Didier Deschamps hefur úr að velja.

Hinn 33 ára gamli Benzema hefur verið frábær í liði Real Madrid á leiktíðinni og er í raun eina ástæðan fyrir því að liðið á enn einhvern möguleika á að vinna La Liga, spænsku úrvalsdeildina. Hann hefur spilað 33 leiki og skorað 22 mörk ásamt því að leggja upp 8 til viðbótar í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×