Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í janúar fyrir að hafa banað eiginkonu sinni með því að hafa þrengt að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar. Upprunalega taldi lögregla ekki að um saknæman dauðdaga væri að ræða en með krufningu réttarmeinafræðingsins kom annað í ljós.
Verjandi mannsins hefur dregið niðurstöðu krufningarinnar í efa og meðal annars talið að það sé allt eins líklegt að dánarorsök konunnar hafi verið eitrunaráhrif vegna samverkandi áhrifa áfengis og svæfandi lyfja.
Málinu var áfrýjað til Landsréttar þar sem dómarar og sérfróður meðdómsmaður hafa verið skipaðir. Verjandi mannsins taldi skipaðan meðdómsmann þó of tengdan bæði fyrri meðdómsmanni í héraði, sem var sammála niðurstöðu krufningarinnar, og réttarmeinafræðingnum sem framkvæmdi hana.
Allir starfa þeir saman á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og þá skrifuðu meðdómsmaðurinn í héraði og meðdómsmaðurinn í Landsrétti fræðigrein saman með þriðja manni fyrir þremur árum síðan.
Þetta þótti Hæstarétti ekki næg tenging til að hægt væri að telja meðdómsmanninn vanhæfan til að fjalla hlutlaust um málið í Landsrétti. Í úrskurðinum segir að verjandinn hefi ekki fært nein rök fyrir því að tengsl mannanna væru meiri en „almennt má ætla að séu fyrir hendi milli starfsmanna á stórum vinnustað“.
Sérfróði meðdómsmaðurinn mun því fjalla um málið með skipuðum dómurum í Landsrétti á næstunni.