Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Tinda­stóll 87-83 | Kefl­víkingar með sópinn á lofti

Atli Arason skrifar
ÍR - Keflavík. Domino's deild karla. Vetur 2020-2021. Körfubolti.
ÍR - Keflavík. Domino's deild karla. Vetur 2020-2021. Körfubolti. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Keflavík er komið í undanúrslit Domino's deildar karla eftir sigur á Tindastól í þriðja leik liðanna suður með sjó. Keflavík snéri leiknum við undir lok leiksins.

Stólarnir komu vel gíraðir til leiks í kvöld. Flenard Whitfield gerði fyrstu þrjár körfur leiksins og kom gestunum strax í 0-6 forskot. Tindastóll hélt þessari forystu þar til um miðjan leikhlutan þegar Deane Williams og Hörður Axel setja tvö þrista í röð til að jafna leikinn í 12-12.Stuttu síðar kom 9-0 kafli hjá heimamönnum þar sem Deane og Calvin Burks sáu um stigaskorunina. Fór svo að Keflavík vann fyrsta leikhlutann 23-18.

Annar leikhluti var jafn framan af þar sem liðin skiptust á að setja stig á töfluna. Þegar tæpar fjórar mínútur voru búnar, þá byrjaði Jaka Brodnik sýningin. Tindastóll var sjö stigum undir í 31-24, Jaka setur alls 11 stig á 3 mínútum og Tindastóll skyndilega komnir í 7 stiga forystu, 31-38. Þessi munur hélst út leikhlutann og liðin gengu því búningsherbergja í hálfleik með 7 stig á milli sín, 36-43. Gestirnir unnu annan fjórðung 13-25.

Stólarnir byrjuðu þriðja leikhluta af miklu afli. Eftir fjögur vítaköst var munurinn á milli liðanna orðinn 11 stig, getunum í vil. Þetta var jafnframt mesti munurinn sem varð á liðunum í kvöld. Í stöðunni 40-50 fer Keflavíkur vélin að trekkja sig í gang. Við tók annar 9-0 kafli hjá heimamönnum sem lauk með troðslu frá Deane Williams og stúkan trylltist, en Keflavík fékk ótrúlega háværan og öflugan stuðning úr stúkunni í gegnum allan leikinn. Baldur tók þá leikhlé sem virkaði ansi vel því Tindastóll skoraði næstu sjö stiginn og staðan orðinn 49-57. Leikurinn var svo í járnum það sem eftir lifði leikhlutans, en þriðja fjórðungi lauk 62-65. Gestirnir því með þriggja stiga forskot fyrir loka leikhlutann í þessum æsispennandi leik.

Síðasti leikhlutinn var ekkert minna spennandi en hinir og hitinn á vellinum var augljós þegar stíga þurfti Antanas Udras og Deane Williams í sundur eftir smá kíting þeirra á milli snemma í leikhlutanum. Bæði lið skoruðu til skiptis. Í stöðunni 77-81 fær Antanas dæmda á sig sóknarvillu og þar með sína fimmtu villu. Var það ákveðin blóðtaka fyrir gestina en Antanas var búinn að vera erfiður viðureignar undir körfunni í varnarleik Tindastóls framan af. Heimamenn gengu þá á lagið næstu tvær mínúturnar og skoruðu fimm stig gegn tveimur frá Stólunum. Þegar mínúta er eftir þá er Tindastóll með eins stigs forskot, 82-83 en Nikolas Tomsick fer þá illa að ráði sínu og tapar boltanum með lélegri sendingu. Heimamenn taka leikhlé og Calvin Burks kemur þeim í tveggja stiga forskot eftir að sniðskot hans fer niður en Calvin fékk víti í kaupbæti sem hann setti einnig niður. 10 sekúndur eru eftir, í stöðunni 85-83, Baldur tekur leikhlé fyrir Tindastól og teiknar upp kerfi. Það fer ekki betur en svo að Nikolas Tomsick tekur of mörg skref og fær boltann dæmdan af sér á ögurstundu. Stólarnir brjóta strax af sér og Milka klárar leikinn fyrir Keflavík á vítalínunni hinu megin. Lokatölur í þessum hörku leik, 87-83.

Af hverju vann Keflavík?

Keflvíkingar eru með rosalega sterkt byrjunarlið. Svo sterkt að þeir þurftu ekki eitt einasta stig af bekknum í kvöld. Varnarleikur og stolnir boltar vega þó sennilega mest í þessum sigri heimamanna í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Allt byrjunarlið Keflavíkur á skilið hrós hér, Milka með 20 stig og 8 fráköst, Deane með 24 stig og 8 fráköst. Hörður Axel með 12 stig og 12 stoðsendingar ásamt 4 stolnum boltum. Calvin Burks og Valur Orri settu svo niður mjög mikilvægar körfur þegar það þurfti. Milka var með flesta framlagspunkta í liði Keflavíkur, 25 talsins.

Hjá gestunum stóðu Flenard Whitfield og Jaka Brodnik upp úr. Jaka var með 23 stig og 6 fráköst á meðan Flenard var með 20 stig og 15 fráköst, 25 framlagspunktar í heild hjá Flenard. Gæða leikur frá mörgum leikmönnum í kvöld.

Hvað gekk illa?

Nikolas Tomsick setti alls niður 20 stig í kvöld en á ögurstundu undir lok leiks þá klikkar Tomsick á tveimur tækifærum til að klára leikinn fyrir Stólanna, með töpuðum bolta fyrst og skrefum strax í næstu sókn. Tomsick mun sennilega ekki sofna auðveldlega í nótt.

Hvað gerist næst?

Tindastóll er úr leik og Keflavík er komið áfram í undanúrslitin en Suðurnesingar munu komast að því í næstu viku hver mótherji þeirra þar verður.

„Við munum ekki fagna fram að nóttu“

Hjalti Þór Vilhjálmssonvísir/vilhelm

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigurinn í þessum jafna leik í kvöld.

„Stólarnir mættu rosalega tilbúnir í þennan leik. Við vorum kannski ekki alveg eins tilbúnir en við vissum það svo sem að þeir myndu ekkert leggjast niður og gefa okkur leikinn. Þeir voru frábærir í kvöld og við þurftum virkilega að hafa fyrir þessu. Það er flott að fá svona leik í lokin og sýna að við getum líka unnið þessa leiki,“ sagði Hjalti í viðtali eftir leik.

„Þetta var ákveðin elja, við fórum og náðum í þennan leik. Þeir voru að hitta mjög vel í lokin, þeir tóku nokkra þrista en svo náum við bara að loka. Við vorum rosa aggresívir í varnarlega og við stálum nokkrum boltum. Sóknarlega hendum við boltanum svolítið mikið inn og strákarnir bara skiluðu.“

Hjalti minnir Keflvíkinga á að þetta er langt frá því að vera búið og ekki tímabært að fagna neinu í kvöld þótt sigurinn hafi verið sætur.

„Við munum ekki fagna fram að nóttu. Við erum bara komnir í gegnum átta liða og næst er það fjögurra liða. Það er hellingur af leikjum eftir, við þurfum bara að endurheimta vel og vera tilbúnir fyrir fjögurra liða.“

Hjalti var svo spurður af því hvort hann hefði einhverja óska mótherja í undanúrslitunum.

„Nei alls ekki, þetta eru allt hörku lið. Tindastóll eru í áttunda sæti og voru að ég held spáð öðru sæti. Þetta eru allt hörku lið. Við tökum bara við næsta andstæðingi,“ svaraði Hjalti.

„Erfitt tímabil og við náðum aldrei að búa til neinn ryþma“

Baldur Þór Ragnarssonvísir/bára

Eins og gefur að skilja var Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastól, svekktur eftir þetta nauma tap í Keflavík í kvöld.

„Þetta er hrikalega svekkjandi, við gerum vel í dag og við erum að leiða leikinn. Það er bara leiðinlegt að klára þetta ekki.“

„Þetta er bara eins og í hinum leikjunum, þeir klára leikinn þegar mestu máli skiptir og við gerum það ekki. Það er eiginlega bara munurinn. Við erum að gera vel á móti þeim í langan tíma en það vantar aðeins upp á,“ sagði Baldur Þór í viðtali eftir leik

Antanas Udras, leikmaður Tindastóls, var villaður út þegar lítið var eftir af leiknum og Stólarnir í forystu, en Antanas hafði verið flottur í vörn Stólanna. Baldur metur það þó þannig að brottrekstur Antanas hefði ekki gert útslagið.

„Nei nei, það er svo sem ekkert sem skiptir máli. Anta, Axel, Jaka og Flen gerðu gífurlega vel í að halda varnarleiknum saman. Við vorum þéttir og þetta eru búnir að vera hörku körfubolta leikir og það er leiðinlegt að ná ekki að stela einum sigri í þessari seríu.“

Einhverjir spekingar spáðu því að Tindastóll myndi enda ofarlega í töflunni og jafnvel berjast um þann stóra. Baldur var spurður af því hvernig hann metur tímabilið hjá Skagfirðingum, stuttu eftir það kláraðist.

„Þetta er bara vonbrigði, erfitt tímabil og við náðum aldrei að búa til neinn ryþma. Eins og núna gegn Keflavík, spilum 50/50 leik þrisvar í röð. Við getum spilað við alla, við erum með lið sem á að geta unnið alla en við erum ekki að ná í sigra og erum ekki að ná að klára leikina. Það kannski súmmerar tímabilið upp,“ svaraði Baldur sem var svo spurður af því hvort hann myndi vera áfram í herbúðum Tindastóls á næsta ári.

„Já, ég reikna með því,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira