Forstjóri Landsvirkjunar skýrði frá því í síðustu viku að nú stefndi í að raforkukerfið yrði fullnýtt, meðal annars vegna aukinnar orkunotkunar álvera, kísilvera og gagnavera.
„Þetta ástand á mörkuðum er betra en við áttum von á,“ segir Hörður Arnarson í fréttum Stöðvar 2. Það sé næstum því of gott til að vera satt.
„Þannig að við þurfum að sjá það aðeins lengur áður en við förum að leggja til svona langtímaaðgerðir eins og byggingu virkjana.“

Nýir kaupendur knýja dyra.
„Við erum að sjá heilmikla eftirspurn í þessum græna iðnaði. Sem snýr meira að gagnaverum. Við erum að sjá marga hafa áhuga á því. Við erum að sjá rafhlöðuframleiðendur sýna landinu áhuga. Svo er mikill áhugi fyrir eldsneytisframleiðslu,“ segir Hörður.
Síðustu stórframkvæmdum Landsvirkjunar við Búrfell tvö lauk fyrir þremur árum. En má þá búast við að virkjanahléinu fari að ljúka?
„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. En þessi mikla breyting á eftirspurninni eykur líkur á því að það sé að færast nær.“
-Hvenær sæir þú fyrir þér að þið þyrftuð að taka ákvörðun um næstu stórvirkjun?
„Við höfum ekki lagt mat á það.“

Hörður segir Landsvirkjun hafa nokkra kosti til að mæta aukinni eftirspurn. Hann nefnir Hvammsvirkjun á Suðurlandi, virkjanamöguleika á Blöndusvæðinu og stækkunarmöguleika á jarðhitasvæðunum fyrir norðan.
„Svo bundum við miklar vonir við að geta byggt upp vind samhliða. En það leyfisveitingaferli hefur því miður ekki gengið nægilega vel.“
Landvirkjun hefur þannig sótt um að fá að virkja vindinn meira með fleiri vindmyllum norðan Búrfells en einnig við Blönduvirkjun og segir Hörður vindorkuna mjög góða þriðju stoð í raforkukerfinu.
„En það eru mikil vonbrigði að leyfisveitingaferli fyrir vind hefur ekki þróast eins og við gerðum okkur vonir fyrir,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: