Áfrýjunardómstóll mildaði fangelsisdóm sem Gunnar hlaut á lægra dómstigi fyrir að verða hálfbróður sínum að bana úr þrettán árum í fimm. Saksóknari áfrýjaði þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar í mars en Gunnar var látinn laus þar til niðurstaða hans lægi fyrir.
Norski miðillinn iFinnmark segir að Hæstiréttur hafi hafnað því að taka áfrýjunina til meðferðar og því standi fimm ára refsidómurinn óhaggaður. Gunnar Jóhann hefur þegar setið í gæsluvarðhaldi í tvö ár og dregst sú vist frá dómnum sem hann hlaut.
Það var í apríl 2019 sem Gunnar Jóhann læsti sig inni á heimili Gísla Þórs hálfbróður síns og beið eftir honum. Þegar Gísli kom heim kom til átaka sem lauk með því að tveimur skotum úr byssu Gunnars Jóhanns var hleypt af.
Annað skotið fór í Gísla en hitt í stofuvegginn. Ástæða ágreiningsins var sú að Gísli Þór var farinn að slá sér upp með barnsmóður Gunnars Jóhanns.
Gunnar Jóhann hefur frá upphafi haldið því fram að um slysaskot væri að ræða og að það hafi aldrei verið ásetningur hans að bana bróður sínum. Saksóknari ákærði hann fyrir manndráp.