Handbolti

Lena í Stjörnuna: Rakel Dögg hefur fylgst með henni síðan hún var tíu ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lena Margrét Valdimarsdóttir verður áfram í bláu en skiptir Safamýrinni út fyrir Garðabæinn.
Lena Margrét Valdimarsdóttir verður áfram í bláu en skiptir Safamýrinni út fyrir Garðabæinn. Fésbók/Stjarnan Handbolti

Handknattleikskonan stórefnilega Lena Margrét Valdimarsdóttir hefur samið við Stjörnuna en hún yfirgefur þar með uppeldisfélagið sitt Fram.

Stjarnan tilkynnti um þriggja ára samning við Lenu Margréti á fésbókarsíðu sinni í dag.

Lena Margrét er á 21. aldursári og hefur spilað með Fram síðan að hún var átta ára gömul. Lena hefur verið Íslandsmeistari með Fram í tvígang og hefur verið fastamaður í öllum yngri landsliðum Íslands.

Á síðasta tímabili spilaði Lena bæði í Olísdeildinni og einnig með U-liði Fram í Grilldeildinni, hún gerði sér lítið fyrir og var markahæsti leikmaður deildarinnar.

Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari Stjörnuliðsins, fagnar því að vera komin með Lenu Margréti í sitt lið.

„Það eru frábærar fréttir að Lena vilji ganga til liðs við okkur. Hún hefur verið ein efnilegasta handboltakona landsins lengi og ég er rosalega spennt að vinna með henni. Ég hef fylgst með hennar handboltaferli síðan hún var aðeins 10 ára gömul en strax þá sá ég að metnaðurinn og hugarfarið hjá Lenu er til fyrirmyndar. Hún er fjölhæfur leikmaður, með sterkt skot, gott auga og góð maður á mann. Hún kemur til með að styrkja okkar hóp gríðarlega mikið fyrir komandi átök í Olísdeildinni,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir við fésbókarsíðu Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×