Innlent

Ekki lengur jarð­sett á eftir­sóttasta tímanum vegna styttingar vinnu­vikunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Af rúmlega fimm hundruð útförum í Reykjavík á síðasta ári voru 150 þeirra á föstudögum.
Af rúmlega fimm hundruð útförum í Reykjavík á síðasta ári voru 150 þeirra á föstudögum. Vísir/Vilhelm

Ekki verður lengur jarðsett í Reykjavík síðdegis á föstudögum, sem hefur verið eftirsóttasti tími vikunnar til útfara, vegna styttingar vinnuvikunnar hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur.

Fréttablaðið hefur í dag eftir prestum og fulltrúa Félags útfararstjóra að ekkert samráð hafi verið haft við þá um þá þjónustuskerðingu sem þessi innleiðing styttingar vinnuvikunnar hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur muni hafa í för með sér, en af rúmlega fimm hundruð útförum í Reykjavík á síðasta ári voru 150 þeirra á föstudögum.

Vísir greindi frá fyrirætlunum um áhrif styttingar vinnuvikunnar á jarðsetningar í apríl síðastliðinn. 

Rúnar Geirmundsson, formaður Félags íslenskra útfararstjóra, segir við Fréttablaðið að félaginu hafi borist bréf með mánaðarfyrirvara um að útfærslan yrði með þessum hætti.

Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða prófastsdæmanna, segir að skoðað hafi verið að fara aðra leið en það hafi verið „eindreginn“ vilji starfsmanna Kirkjugarða Reykjavíkur að fara þessa leið. Þá hafi samband verið haft við presta og útfararstjóra, og einungis fjórir prestar sent inn kvörtun.

Eftir breytingu verða engar útfarir með jarðsetningu eftir hádegi á föstudögum, heldur verður aðeins í boði að vera með útför og jarðsetningu ef athöfnin hefst klukkan 10 að morgni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×