Innlent

Sagt að hypja sig úr landi og koma aldrei aftur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Reynolds er mikill áhugamaður um eldfjöll og eldsumbrot. Hér er hann við nýtt hraun á Reykjanesskaga á dögunum.
Reynolds er mikill áhugamaður um eldfjöll og eldsumbrot. Hér er hann við nýtt hraun á Reykjanesskaga á dögunum. Instagram/@vinnymanchicken

Bandaríkjamaðurinn Vincent Reynolds, maðurinn sem komst í fréttir hér á landi þegar hann gekk upp að gígnum í Geldingadölum og hljóp síðan niður þegar hraun tók að streyma úr gígnum, segist ekki hafa ætlað að móðga nokkurn mann eða særa með athæfi sínu.

Í samtali við fréttastofu segist Vincent, sem er með bakkalárgráðu í jarðfræði, að hann sé afar áhugasamur um eldfjöll og eldsumbrot. Hann hafi þá mikla reynslu af því að ganga á nýstorknuðu hrauni í grennd við virkar eldstöðvar. Það hafi hann til að mynda gert áður við Kilauea-eldfjall á Hawaii. Hann kveðst þó átta sig á því að för hans upp að gígnum hafi verið ógætileg í einhverjum skilningi.

Eftir hörð viðbrögð, einkum og sér í lagi á netinu, segist hann vilja útskýra hvað sér gekk til með för sinni svo nálægt gígnum.

„Ég sá mynstur í því hvernig og hvar hraunið rann. Ætli ég hafi ekki verið pínulítið fífldjarfur, en mig langaði að sjá þetta stóra hraunrennsli í návígi. Ég veit að þetta lítur út fyrir að hafa verið alveg hrikalega hættulegt og ógnvekjandi, en þetta var ekki jafn mikið og þetta leit út fyrir að vera,“ segir Reynolds.

Hann hafi getað séð á storknuðu hrauninu hvar væri óhætt að stíga og hvar ekki, hvort hraunið væri enn svo mjúkt og heitt að það gæfi undan þar sem hann stigi niður fæti.

„Ég gerði þetta því ég hef alltaf elskað eldfjöll, þetta er eitt ótrúlegasta náttúrufyrirbæri sem ég hef séð. Það er helsta ástæða þess að ég gerði þetta.“

Björgunarfólk bað hann að fara ekki aftur

Reynolds segist hafa fengið tiltal frá björgunarsveitarfólki eftir uppátæki sitt. Hann kvaðst þá vita af því að mælt væri gegn því að fólk færi upp á nýstorknað hraunið og að fólk gerði það á eigin ábyrgð.

„Daginn eftir var mér sagt af björgunarsveitarfólki að gera þetta ekki,“ segir Reynolds.

Hann hafi ætlað sér að fara aftur en ákveðið að virða óskir björgunarsveitarfólks, sem hafi tjáð honum að þó hann væri vanur þá gæti annað, óreyndara fólk leikið athæfi hans eftir, mögulega með alvarlegum afleiðingum.

Óskað óhamingju og til hamingju

Reynolds segist þá hafa fengið nokkuð blendin viðbrögð við göngu sinni upp að gígnum. Viðtökurnar í raunheimum hafi verið afar góðar, en netverjar hafi margir hverjir tekið verr í uppátækið.

„Fólk tók myndir með mér og sagði mér að þetta hefði verið klikkað. Á netinu hefur þetta verið tvískipt. Sumum fannst þetta mjög flott en öðrum fannst þetta bera vott um virðingarleysi, sem var alls ekki markmiðið hjá mér. Ég vildi aldrei gera neinn reiðan eða neitt svoleiðis,“ segir Reynolds.

Hann segist raunar hafa ætlað sér að fara leynt með ferð sína upp að gígnum, en það tókst ekki betur en svo að hann sást í vefmyndavél ganga upp og hlaupa svo niður.

„Sumir segjast óska þess að ég deyi eða að ég sé mesta fífl í heimi. Öllum er frjálst að hafa sína skoðun. Svona er bara netið, stundum er fólk illkvittið á netinu. Það er bara þannig,“ segir Reynolds og bætir við að sumir netverjar hafi sagt honum að hypja sig úr landi og koma ekki aftur.

Honum þykir auðheyranlega leiðinlegt að hafa móðgað fólk en skeytir greinilega lítið um orð þeirra sem ráðist hafa að honum í athugasemdakerfum á vefnum.

„Ég vildi ekki gera neinn reiðan. Ég ætlaði reyndar að komast upp óséður því það var enginn fyrir aftan mig. Ég vildi bara upplifunina, sem ég get sagt að var ein sú ótrúlegasta í lífi mínu.“

Hann bætir því við að allan tímann hafi honum fundist hann öruggur og telur að engin hætta hafi verið á að hraunið næði honum þegar hann hljóp niður.

„Ég hljóp niður til þess að ganga úr skugga um að ég væri alveg öruggur.“

Hrifinn af Íslandi og til í að koma aftur

Reynolds er hér á landi í fríi en heldur á brott á morgun. Hann ber landi og fólki góða sögu.

„Fólkið er frábært. Hverarnir og fossarnir eru flottir,“ segir Reynolds og nefnir sérstaklega Seljalandsfoss, sem hann hefur orð á að sé erfitt að bera fram nafnið á.

Hann segir reynslu sína af landinu frábæra, og þess vegna hafi honum þótt það miður þegar hann sá athugasemdir á netinu þess efnis að hann væri ekki velkominn hér, ætti að fara og aldrei koma aftur. Markmið hans hafi ekki verið að særa neinn, eins og áður sagði, heldur komast í meira návígi við eldgosið.

Hann ítrekar hve leitt honum þykir að hafa móðgað fólk eða reitt til reiði.

„Mér þykir það mjög leitt. Ég ætlaði ekki að særa neinn eða neitt. Ég hef mikla reynslu af þessu sviði og passaði vel hvar ég steig og hvar hraunið myndi renna. Ég var í raun í frekar lítilli hættu. Ég veit hvernig þetta lítur út.“

Reynolds segist þó vera á þeirri skoðun að fólk með litla eða enga reynslu ætti almennt ekki að gera það sem hann gerði.

Hann segist þá vel geta ímyndað sér að heimsækja Ísland aftur í framtíðinni.

„Ég væri til í það einn daginn. Þetta er frábær staður og æðisleg heimsókn. Ef það verður annað eldgos væri ég mjög til í að koma og sjá það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×