Handbolti

Valur er með dýrara lið heldur en Haukar

Andri Már Eggertsson skrifar
Aron Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld.
Aron Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Valur tók frumkvæðið í fyrri viðureign gegn Haukum í úrslita einvíginu. Leikurinn endaði með þriggja marka sigri Vals 32-29. Aron Kristjánsson þjálfari Hauka var allt annað en sáttur með dómgæsluna í leiknum en gaf þó lítið fyrir það eftir leik.

„Ég tala ekki um dómara í viðtölum. Þetta var hörku einvígi í kvöld, þetta var dapur leikur hjá okkur. En ég ætla ekki að tala um dómarana þeir skipti ekki máli."

„Það sem skiptir máli er að við komum til baka í síðari hálfleik en við fórum síðan að gera lítil mistök sem kostuðu okkur í lokinn," sagði Aron eftir leik.

Haukar hafa verið að fá á sig að meðaltali 24 mörk í leik. Gegn Stjörnunni fengu þeir á sig 32 mörk, í kvöld var sama upp á teningunum þar sem Valur skoraði einnig 32 mörk.

„Við verðum að átta okkur á því að Valur er mjög gott lið, fyrir tímabilinu var þeim spáð titlinum ásamt okkur en fyrst núna eru þeir að ná öllum vopnum sínum og eru þeir með dýrara lið heldur en við í Haukum."

„Það er hálfleikur í þessu einvígi, þeir eru þremur mörkum yfir en ég tel að við eigum alveg jafn mikinn möguleika á að vinna þetta einvígi og þeir á föstudaginn," sagði Aron að lokum.

Aron fór mikinn í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×