Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Keflavík 88-83 | Þórsarar stóðust áhlaupið og eru einum sigri frá titlinum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 19. júní 2021 22:50 Adomas Drungilas átti stórleik þegar Þór Þ. sigraði Keflavík í kvöld. vísir/bára Þór Þ. vann fimm stiga sigur á Keflavík, 88-83, í öðrum leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla í kvöld. Þórsarar geta tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil með sigri í þriðja leik liðanna í Keflavík á þriðjudaginn. Þór var mun sterkari aðilinn framan af og komst mest sautján stigum yfir. Í hálfleik munaði svo tíu stigum á liðunum, 47-37. Keflavík kom með mjög kröfugt áhlaup í seinni hálfleik og komst yfir en Þór sýndi gríðarlega mikinn styrk með því að vinna sig aftur inn í leikinn og landa sigrinum. Eftir að hafa unnið síðustu tólf leiki sína í deildakeppninni og fyrstu sex leikina í úrslitakeppninni hafa Keflvíkingar tapað tveimur leikjum á fjórum dögum og eru komnir í vond mál. Þeir þurfa núna að gera nokkuð sem engu liði hefur tekist; koma til baka eftir að hafa lent 2-0 undir í úrslitaeinvíginu. Adomas Drungilas skoraði 29 stig fyrir Þór og Larry Thomas tuttugu. Callum Lawson og Styrmir Snær Þrastarson gerðu fjórtán stig hvor. Calvin Burks var stigahæstur í liði Keflavíkur með 27 stig. Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti, hittu vel og spiluðu stífa vörn á Dominykas Mikla og Deane Williams. Þór komst í 20-10 og var fimm stigum yfir eftir 1. leikhluta, 27-22. Þórsarar voru með 63 prósent skotnýtingu í honum og níu stoðsendingar. Thomas mætti með byssurnar hlaðnar í 2. leikhluta og setti niður þrjár þriggja stiga körfur á fyrstu tveimur mínútum hans. Eftir þrist frá Davíð Arnari Ágústsson komst Þór fimmtán stigum yfir, 41-26, og gleðin alls ráðandi í húsinu. Eftir frábæra byrjun á 2. leikhluta hrökk sókn Þórsara í baklás. Þeir skoruðu aðeins eina körfu á síðustu sjö mínútum fyrri hálfleiks en leiddu þrátt fyrir það með tíu stigum að honum loknum, 47-37. Keflavík þétti vörnina seinni hluta 2. leikhluta en hitti áfram ekki neitt og var aðeins með 33 prósent skotnýtingu í fyrri hálfleik. Þór var áfram í sömu sóknarvandræðum í upphafi seinni hálfleiks en allt annað var að sjá sóknarleik Keflavíkur. Gestirnir byrjuðu loks að hitta og vörnin var áfram þétt. Þeir plokkuðu af forystu heimamanna og eftir þrist frá Reggie Dupree þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af 3. leikhluta minnkuðu þeir muninn í eitt stig, 62-61. Skömmu síðar jöfnuðu Keflvíkingar eftir þriggja stiga sókn hjá Williams. Keflavík vann 3. leikhlutann, 30-21, og var aðeins einu stigi undir, 68-67, að honum loknum. Gestirnir héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt og Burks kom þeim yfir, 68-70, í fyrsta sinn síðan í upphafi leiks þegar hann setti niður ótrúlegan þrist í þann mund sem skotklukkan rann út í upphafi 4. leikhluta. Eftir að hafa haft afar hægt um sig eftir kröftuga byrjun setti Callum Lawson niður tvo þrista, þegar Þórsarar þurftu virkilega á því að halda, og Drungilas setti svo annan stóran niður og kom Þór í 82-74 þegar fjórar mínútur voru eftir. Eftir það var róður Keflvíkinga þungur. Lokamínúturnar fóru að mestu fram á vítalínunni og Þórsarar gerðu nógu vel þar til að halda Keflvíkingum frá sér. Hinn nítján ára Styrmir Snær sýndi til að mynda gríðarlega mikla yfirvegun þegar hann setti niður tvö víti þegar sjö sekúndur voru eftir og kom Þór fimm stigum yfir, 88-83, sem urðu lokatölur leiksins. Af hverju vann Þór? Þórsarar voru heilt yfir sterkari aðilinn og verðskulduðu sigurinn. Þeir fengu vissulega á sig mikla ágjöf í seinni hálfleik og Keflvíkingar voru líklegir að snúa dæminu sér í vil. En heimamenn, leiddir áfram af Lawson og Drungilas, komu með sitt eigið áhlaup þegar þess þurfti og það dugði til. Þór spilaði af skynsemi, tapaði boltanum bara níu sinnum og var með 66 prósent nýtingu inni í teig. Þá unnu Þórsarar frákastabaráttuna, 38-34, sem er hægara sagt en gert gegn Keflvíkingum. Hverjir stóðu upp úr? Drungilas átti algjöran stórleik, skoraði 29 stig, tók sjö fráköst og spilaði dúndur vörn. Thomas átti frábæra kafla, Lawson var góður í byrjun og lok leiks og Styrmir stóð að venju fyrir sínu. Burks var besti leikmaður Keflavíkur og fór fyrir áhlaupi liðsins í 3. leikhluta. Hann skoraði 27 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Hvað gekk illa? Keflvíkingar voru mjög lengi í gang og lentu mest fimmtán stigum undir. Þeir hittu illa í fyrri hálfleik og vörnin var mjög slök framan af leik. Bakverðir liðsins, Hörður Axel Vilhjálmsson og Valur Orri Valsson, fundu ekki taktinn og hittu aðeins úr samtals fimm af fjórtán skotum sínum í leiknum. Þór hefur oft fengið meira framlag frá varamönnum sínum, allavega í stigum talið, en í kvöld en það kom ekki að sök. Hvað gerist næst? Liðin mætast í þriðja sinn í Keflavík á þriðjudaginn. Með sigri í þeim leik verður Þór Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Ef Keflavík vinnur þurfa liðin hins vegar að mætast í fjórða sinn í Þorlákshöfn á föstudaginn. Styrmir Snær: Þetta verkefni er ekki búið Styrmir Snær Þrastarson hefur leikið frábærlega í úrslitakeppninni.vísir/bára Styrmir Snær Þrastarson skoraði fjórtán stig þegar Þór vann Keflavík í kvöld. Hann sýndi mikið öryggi undir lokin þegar hann setti niður tvö vítaskot og gulltryggði sigur Þórsara. „Hún er mjög einföld. Þú þarft bara að leiða allan hávaðann hjá þér og þetta eru bara tvö víti,“ sagði Styrmir aðspurður um tilfinninguna að standa á vítalínunni þegar allt var undir. Þórsarar eru 2-0 yfir í einvíginu og þurfa bara einn sigur í viðbót til að verða Íslandsmeistarar í fyrsta sinn. „Þetta er mjög gaman en við gleymum þessu bara á morgun. Við förum til Keflavíkur og ætlum að vinna þann leik. Við eigum einn sigur eftir og þetta verkefni er ekki búið. Við komum brjálaðir til Keflavíkur á þriðjudaginn,“ sagði Styrmir. En hver var lykilinn að sigrinum? „Þetta er bara liðsheildin. Við spilum frábæra liðsvörn og líka frábæra liðssókn. Svo erum við með frábæra stuðningsmenn sem mæta á alla leiki og styðja okkur til sigurs,“ sagði Styrmir. Hann hrósaði Adomas Drungilas sem átti stórleik og skoraði 29 stig. „Hann er frábær leikmaður og getur búið til pláss. Mér finnst eins og fólk hafi vanmetið hann allt tímabilið. Hann er frábær,“ sagði Styrmir. Finnur: Rosaleg áskorun fyrir okkur Finnur Jónsson, lengst til hægri, sagði að Keflvíkingar hefðu ekki mætt nógu tilbúnir til leiks.vísir/bára Finnur Jónsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, sagði að það hafi reynst liðinu erfitt að lenda undir í fyrri hálfleik og þurfa að klóra sig til baka. „Við lentum í holu í byrjun og það tók gríðarlega mikla orku að koma sér upp úr henni. Þetta var mun betra en í síðasta leik hjá okkur og það er nóg eftir,“ sagði Finnur eftir leik. Mestur varð munurinn á liðunum sautján stig, 43-26. „Það er stór hola á móti þetta góðu liði, engin spurning. Við þurfum að laga það fyrir næsta leik, að lenda ekki í svona holu. Við þurfum að mæta þeim af sömu hörku og þeir sýna.“ Finni fannst Keflvíkingar ekki vera klárir í byrjun leiks. „Við vorum bara ekki tilbúnir í hörkuna hérna í byrjun. Þeir hittu eins og svín í byrjun og voru með frábæra skotnýtingu. Það var kannski vegna þess að þeir fengu eitthvað af opnum skotum og við þurfum að gera betur þar. Við þurfum að fara yfir það, strax í kvöld, og bæta okkar leik,“ sagði Finnur. Adomas Drungilas skoraði 29 stig og sýndi aðeins á sér nýja hlið með því að setja niður sex þriggja stiga skot. En kom það Keflvíkingum á óvart? „Óvart og ekki óvart. Þetta er hörkuskotmaður en kannski ekki maðurinn sem við bjuggumst við að myndi skjóta á sig nýtt rassgat hérna. Hann átti frábæran leik,“ sagði Finnur. Liðin mætast í þriðja sinn á þriðjudaginn og þar verður Keflavík að vinna til að halda sér á lífi í einvíginu. „Það er rosaleg áskorun fyrir okkur, að sýna úr hverju við erum gerðir. Það sem er búið, að vera efstir í deildinni og allt það, skiptir engu máli í dag, heldur hverjir ætla að mæta og vera klárir að vinna leikinn,“ sagði Finnur. Dominos-deild karla Þór Þorlákshöfn Keflavík ÍF
Þór Þ. vann fimm stiga sigur á Keflavík, 88-83, í öðrum leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla í kvöld. Þórsarar geta tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil með sigri í þriðja leik liðanna í Keflavík á þriðjudaginn. Þór var mun sterkari aðilinn framan af og komst mest sautján stigum yfir. Í hálfleik munaði svo tíu stigum á liðunum, 47-37. Keflavík kom með mjög kröfugt áhlaup í seinni hálfleik og komst yfir en Þór sýndi gríðarlega mikinn styrk með því að vinna sig aftur inn í leikinn og landa sigrinum. Eftir að hafa unnið síðustu tólf leiki sína í deildakeppninni og fyrstu sex leikina í úrslitakeppninni hafa Keflvíkingar tapað tveimur leikjum á fjórum dögum og eru komnir í vond mál. Þeir þurfa núna að gera nokkuð sem engu liði hefur tekist; koma til baka eftir að hafa lent 2-0 undir í úrslitaeinvíginu. Adomas Drungilas skoraði 29 stig fyrir Þór og Larry Thomas tuttugu. Callum Lawson og Styrmir Snær Þrastarson gerðu fjórtán stig hvor. Calvin Burks var stigahæstur í liði Keflavíkur með 27 stig. Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti, hittu vel og spiluðu stífa vörn á Dominykas Mikla og Deane Williams. Þór komst í 20-10 og var fimm stigum yfir eftir 1. leikhluta, 27-22. Þórsarar voru með 63 prósent skotnýtingu í honum og níu stoðsendingar. Thomas mætti með byssurnar hlaðnar í 2. leikhluta og setti niður þrjár þriggja stiga körfur á fyrstu tveimur mínútum hans. Eftir þrist frá Davíð Arnari Ágústsson komst Þór fimmtán stigum yfir, 41-26, og gleðin alls ráðandi í húsinu. Eftir frábæra byrjun á 2. leikhluta hrökk sókn Þórsara í baklás. Þeir skoruðu aðeins eina körfu á síðustu sjö mínútum fyrri hálfleiks en leiddu þrátt fyrir það með tíu stigum að honum loknum, 47-37. Keflavík þétti vörnina seinni hluta 2. leikhluta en hitti áfram ekki neitt og var aðeins með 33 prósent skotnýtingu í fyrri hálfleik. Þór var áfram í sömu sóknarvandræðum í upphafi seinni hálfleiks en allt annað var að sjá sóknarleik Keflavíkur. Gestirnir byrjuðu loks að hitta og vörnin var áfram þétt. Þeir plokkuðu af forystu heimamanna og eftir þrist frá Reggie Dupree þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af 3. leikhluta minnkuðu þeir muninn í eitt stig, 62-61. Skömmu síðar jöfnuðu Keflvíkingar eftir þriggja stiga sókn hjá Williams. Keflavík vann 3. leikhlutann, 30-21, og var aðeins einu stigi undir, 68-67, að honum loknum. Gestirnir héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt og Burks kom þeim yfir, 68-70, í fyrsta sinn síðan í upphafi leiks þegar hann setti niður ótrúlegan þrist í þann mund sem skotklukkan rann út í upphafi 4. leikhluta. Eftir að hafa haft afar hægt um sig eftir kröftuga byrjun setti Callum Lawson niður tvo þrista, þegar Þórsarar þurftu virkilega á því að halda, og Drungilas setti svo annan stóran niður og kom Þór í 82-74 þegar fjórar mínútur voru eftir. Eftir það var róður Keflvíkinga þungur. Lokamínúturnar fóru að mestu fram á vítalínunni og Þórsarar gerðu nógu vel þar til að halda Keflvíkingum frá sér. Hinn nítján ára Styrmir Snær sýndi til að mynda gríðarlega mikla yfirvegun þegar hann setti niður tvö víti þegar sjö sekúndur voru eftir og kom Þór fimm stigum yfir, 88-83, sem urðu lokatölur leiksins. Af hverju vann Þór? Þórsarar voru heilt yfir sterkari aðilinn og verðskulduðu sigurinn. Þeir fengu vissulega á sig mikla ágjöf í seinni hálfleik og Keflvíkingar voru líklegir að snúa dæminu sér í vil. En heimamenn, leiddir áfram af Lawson og Drungilas, komu með sitt eigið áhlaup þegar þess þurfti og það dugði til. Þór spilaði af skynsemi, tapaði boltanum bara níu sinnum og var með 66 prósent nýtingu inni í teig. Þá unnu Þórsarar frákastabaráttuna, 38-34, sem er hægara sagt en gert gegn Keflvíkingum. Hverjir stóðu upp úr? Drungilas átti algjöran stórleik, skoraði 29 stig, tók sjö fráköst og spilaði dúndur vörn. Thomas átti frábæra kafla, Lawson var góður í byrjun og lok leiks og Styrmir stóð að venju fyrir sínu. Burks var besti leikmaður Keflavíkur og fór fyrir áhlaupi liðsins í 3. leikhluta. Hann skoraði 27 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Hvað gekk illa? Keflvíkingar voru mjög lengi í gang og lentu mest fimmtán stigum undir. Þeir hittu illa í fyrri hálfleik og vörnin var mjög slök framan af leik. Bakverðir liðsins, Hörður Axel Vilhjálmsson og Valur Orri Valsson, fundu ekki taktinn og hittu aðeins úr samtals fimm af fjórtán skotum sínum í leiknum. Þór hefur oft fengið meira framlag frá varamönnum sínum, allavega í stigum talið, en í kvöld en það kom ekki að sök. Hvað gerist næst? Liðin mætast í þriðja sinn í Keflavík á þriðjudaginn. Með sigri í þeim leik verður Þór Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Ef Keflavík vinnur þurfa liðin hins vegar að mætast í fjórða sinn í Þorlákshöfn á föstudaginn. Styrmir Snær: Þetta verkefni er ekki búið Styrmir Snær Þrastarson hefur leikið frábærlega í úrslitakeppninni.vísir/bára Styrmir Snær Þrastarson skoraði fjórtán stig þegar Þór vann Keflavík í kvöld. Hann sýndi mikið öryggi undir lokin þegar hann setti niður tvö vítaskot og gulltryggði sigur Þórsara. „Hún er mjög einföld. Þú þarft bara að leiða allan hávaðann hjá þér og þetta eru bara tvö víti,“ sagði Styrmir aðspurður um tilfinninguna að standa á vítalínunni þegar allt var undir. Þórsarar eru 2-0 yfir í einvíginu og þurfa bara einn sigur í viðbót til að verða Íslandsmeistarar í fyrsta sinn. „Þetta er mjög gaman en við gleymum þessu bara á morgun. Við förum til Keflavíkur og ætlum að vinna þann leik. Við eigum einn sigur eftir og þetta verkefni er ekki búið. Við komum brjálaðir til Keflavíkur á þriðjudaginn,“ sagði Styrmir. En hver var lykilinn að sigrinum? „Þetta er bara liðsheildin. Við spilum frábæra liðsvörn og líka frábæra liðssókn. Svo erum við með frábæra stuðningsmenn sem mæta á alla leiki og styðja okkur til sigurs,“ sagði Styrmir. Hann hrósaði Adomas Drungilas sem átti stórleik og skoraði 29 stig. „Hann er frábær leikmaður og getur búið til pláss. Mér finnst eins og fólk hafi vanmetið hann allt tímabilið. Hann er frábær,“ sagði Styrmir. Finnur: Rosaleg áskorun fyrir okkur Finnur Jónsson, lengst til hægri, sagði að Keflvíkingar hefðu ekki mætt nógu tilbúnir til leiks.vísir/bára Finnur Jónsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, sagði að það hafi reynst liðinu erfitt að lenda undir í fyrri hálfleik og þurfa að klóra sig til baka. „Við lentum í holu í byrjun og það tók gríðarlega mikla orku að koma sér upp úr henni. Þetta var mun betra en í síðasta leik hjá okkur og það er nóg eftir,“ sagði Finnur eftir leik. Mestur varð munurinn á liðunum sautján stig, 43-26. „Það er stór hola á móti þetta góðu liði, engin spurning. Við þurfum að laga það fyrir næsta leik, að lenda ekki í svona holu. Við þurfum að mæta þeim af sömu hörku og þeir sýna.“ Finni fannst Keflvíkingar ekki vera klárir í byrjun leiks. „Við vorum bara ekki tilbúnir í hörkuna hérna í byrjun. Þeir hittu eins og svín í byrjun og voru með frábæra skotnýtingu. Það var kannski vegna þess að þeir fengu eitthvað af opnum skotum og við þurfum að gera betur þar. Við þurfum að fara yfir það, strax í kvöld, og bæta okkar leik,“ sagði Finnur. Adomas Drungilas skoraði 29 stig og sýndi aðeins á sér nýja hlið með því að setja niður sex þriggja stiga skot. En kom það Keflvíkingum á óvart? „Óvart og ekki óvart. Þetta er hörkuskotmaður en kannski ekki maðurinn sem við bjuggumst við að myndi skjóta á sig nýtt rassgat hérna. Hann átti frábæran leik,“ sagði Finnur. Liðin mætast í þriðja sinn á þriðjudaginn og þar verður Keflavík að vinna til að halda sér á lífi í einvíginu. „Það er rosaleg áskorun fyrir okkur, að sýna úr hverju við erum gerðir. Það sem er búið, að vera efstir í deildinni og allt það, skiptir engu máli í dag, heldur hverjir ætla að mæta og vera klárir að vinna leikinn,“ sagði Finnur.
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti