Fótbolti

Hollywood stjarnan mætti með bongó­trommu og keyrði upp stuðið í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthew McConaughey var flottur í grænu jakkafötunum sínum.
Matthew McConaughey var flottur í grænu jakkafötunum sínum. Intsgram/austinfc

Óskarverðlaunahafinn Matthew McConaughey er einnig mikill fótboltaáhugamaður og þá erum við að tala um evrópska fótboltann en ekki þann ameríska.

McConaughey er einn af eigendum MLS-liðsins Austin FC sem var stofnað 12. október 2018 og er að keppa á sínu fyrsta tímabili í MLS-deildinni.

Fyrsti heimaleikur félagsins í MLS var um helgina á móti San Jose Earthquakes. Liðið hafði spilað átta fyrstu leiki sína á útivelli þar sem nýi Q2 leikvangurinn var ekki tilbúinn.

Leikvangurinn var klár rétt fyrir helgi og hinn 51 árs gamli McConaughey vildi gera eitthvað sérstakt í tímabili af þessari stóru stund.

Hann fór því út á völlinn með bongótrommu og fór fyrir nokkrum góðum söngvum stuðningsmannanna. McConaughey var í geggjuðum grænum jakkafötum og fékk tuttugu þúsund áhorfendur til að rífa upp stemmninguna.

McConaughey á alls ekki meirihluta í félaginu en tekur virkan þátt. Hann er þannig duglegur að mæta á æfingar liðsins sem og að hitta stuðningsmenn þess.

Það fylgir reyndar sögunni að leikurinn endaði með markalausu jafntefli og þessi frammistaða McConaughey fyrir leik voru kannski bara tilþrif leiksins. Hér fyrir ofan og neðan má sjá kappann fara á kostum.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×