Fótbolti

Spyr hver ráði því eiginlega hvort hún megi taka barnið sitt með á ÓL eða ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Morgan með dóttur sína Charlie Carrasco eftir leik með bandaríska landsliðinu.
Alex Morgan með dóttur sína Charlie Carrasco eftir leik með bandaríska landsliðinu. Getty/Brad Smith

Það eru fullt af mömmum í hópi þeirra íþróttakvenna sem eru á leiðinni á Ólympíuleikana í Tókýó. Það hefur hins vegar ekki verið á hreinu hvort þær megi taka börnin sín með vegna strangra sóttvarnarreglna í Japan.

Knattspyrnukonan Alex Morgan á eins ára gamla dóttur en hún veit ekki ennþá, viku fyrir brottför á leikana, hvort hún megi taka barnið sitt með.

Sumar íþróttakonur hafa kvartað yfir því að þær séu hreinlega þvingaðar til að velja á milli þátttöku á leikunum og barnanna sinna.

Skipuleggjendur leikanna sögðu hins vegar blaðamanni Reuters frá því að í þeim tilfellum sem það sé nauðsynlegt fyrir mæður með börn á brjósti að taka barnið með, þá verði það leyft.

Fjölskyldur íþróttafólksins mega þó ekki koma á leikanna og erlendir áhorfendur eru bannaðir. Þá verður takmarkaður fjöldi innlendra áhorfenda leyfður.

Alex Morgan spurði um það á samfélagsmiðlum hver það sé eiginlega sem ákveði hvort það sé nauðsynlegt eða ekki fyrir móður að taka barnið sitt með.

„Ég er ekki viss um hvað nauðsynlegt þýðir í þessu samhengi. Er það Alþjóðaólympíunefndin eða móðirin sjálf sem ákveða það? Við mæður á leiðinni á þessum Ólympíuleika lýsum því yfir að það sé nauðsynlegt,“ skrifaði Alex Morgan eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Það hefur ekki verið haft samband við mig hvort ég megi taka eins árs dóttur mína með til Japans og við leggjum í hann eftir aðeins sjö daga,“ skrifaði Morgan.

Alex Morgan er ein allra besta knattspyrnukonan heims en þessi öflugi framherji er með 110 mörk í 178 landsleikjum með bandaríska liðinu og hefur orðið bæði heimsmeistari og Ólympíumeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×