Þegar horft var á gíginn í vefmyndavél Vísis nú síðdegis sást rjúka úr honum en enginn jarðeldur. Raunar hefur ekkert hraun sést koma upp úr gígnum frá því seint á mánudagskvöld.
„Þetta gæti verið byrjunin á endalokunum. En það er ekki hægt að slá neinu föstu um það,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í fréttum Stöðvar 2.

Það sást reyndar í eldbjarma um tíma í nótt en engar hraunslettur sáust úr gígnum.
„Það eru svona vissar vísbendingar um að það hægi á landssiginu sem fylgir því að kvikan er að koma upp af dýpi.“
Magnús segir litla sem enga virkni sjást í gígnum og einnig hafi lítil virkni sést síðustu daga á hraunjöðrunum, lítið sjáist í glóð.
„Þannig að það er svo að sjá að það sé eitthvert hökt komið í framleiðnina niðri. En það útilokar hins vegar ekkert að þetta nái sér af stað aftur. Við verðum bara að bíða og sjá. Það er ekki nærri komið að því að segja að þetta gos sé búið.“

Þá segir Magnús að flest gos á Reykjanesskaga verði ekki mikið stærri en þetta.
„Gosið núna í Fagradalsfjalli, það er orðið svona meðalgos og er stærra en meðalgos akkúrat á þessu svæði. En það segir hins vegar ekkert um hvernig þetta ætlar að enda og við getum ekkert fullyrt um það ennþá.“
Hann telur minni líkur á dyngjugosi sem standi árum saman.
„Þær eru minni. Það eru minni líkur á að við fáum stóra dyngju. Af því bara að það er miklu sjaldgæfari atburður á Reykjanesskaga miðað við svona meðalgosin.“

Þegar gosið var í hvað mestum ham töldu menn að stutt væri í að það næði Suðurstrandarvegi. Á Ísólfsskála kepptist fólk við að bjarga verðmætum úr húsum áður en hraunið flæddi yfir jörðina.
„Ef þetta er nú byrjunin á endalokunum þá eru nú bara góðar líkur á að þetta fari ekkert niður á Suðurstrandarveg. En það er engu hægt að slá föstu ennþá,“ segir Magnús Tumi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá gíginn í beinni á vefmyndavél Vísis: