Enski boltinn

PSG sagt vilja kaupa Paul Pogba frá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba stóð sig vel með franska landsliðinu á EM og gæti nú verið á leið í franska boltann.
Paul Pogba stóð sig vel með franska landsliðinu á EM og gæti nú verið á leið í franska boltann. EPA-EFE/Zsolt Szigetvary

Þetta hefur verið stórt sumar fyrir franska liðið Paris Saint-Germain og menn eru áfram stórhuga í París.

ESPN hefur heimildir fyrir því að Paris Saint-Germain ætli að reyna að kaupa Paul Pogba frá Manchester United í sumar.

Framtíð Pogba á Old Traford hefur verið tvísýn en hann á eftir tólf mánuði af samningi sínum við enska félagið.

Mino Raiola, umboðsmaður Paul Pogba, talaði um það í desember síðastliðnum að leikmaðurinn þyrfti að prófa eitthvað nýtt og tími hans hjá United væri liðinn.

Hinn 28 ára gamli miðjumaður endaði tímabilið aftur á móti miklu betur en hann byrjaði það.

Hann spilaði líka vel á Evrópumótinu í Frakklandi þótt að Frakkar hafi dottið óvænt út á móti Sviss í sextán liða úrslitunum.

Íþróttastjóri PSG og Raiola hittust í Mónakó í júní og hafa einnig talað saman um Pogba í sumar samkvæmt frétt ESPN.

Ítalski landsliðsmarkvörðurinn Gianluigi Donnarumma og spænski miðvörðurinn Sergio Ramos hafa báðir gengið til liðs við PSG í sumar.

Koma Pogba myndi þýddi að PSG þyrfti að skera niður í miðjumannahópnum sínum og menn eins og Pablo Sarabia, Ander Herrera eða Leandro Paredes eru líklega þeir sem verður fórnað til að búa til pláss fyrir Pogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×