Fótbolti

Zi­da­ne ætlar sér að taka við franska lands­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Zidane stefnir á að verða landsliðsþjálfari Frakklands í framtíðinni.
Zidane stefnir á að verða landsliðsþjálfari Frakklands í framtíðinni. Juan Manuel Serrano Arce/Getty Images

Frakkinn Zinedine Zidane hefur eingöngu áhuga á að taka við franska landsliðinu en hann sagði starfi sínu lausu hjá Real Madrid síðasta vor.

Samkvæmt franska miðlinum L‘Equipe horfir Zidane girndaraugum á þjálfarastöðu franska landsliðsins. Hinn 49 ára gamli Zidane er klárí að taka við starfinu en talið er að Didier Deschamps – sem hefur stýrt franska landsliðinu frá 2012 – láti af störfum eftir HM í Katar sem fram fer undir lok árs 2022.

Zidane er ekkert að flýta sér og er alveg tilbúinn að bíða til 2023.

Deschamps hefur náð góðum árangri sem landsliðsþjálfari en undir hans stjórn fór Frakkland alla leið í úrslit Evrópumótsins 2016 þar sem liðið tapaði 1-0 fyrir Portúgal í framlengdum leik. Liðið varð heimsmeistari tveimur árum síðar en datt óvænt út gegn Sviss í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í ár.

Zidane var einkar farsæll sem leikmaður og varð bæði heims- og Evrópumeistari með franska liðinu ásamt því að vinna fjölda titla sem leikmaður. 

Sem þjálfari hefur hann eingöngu stýrt spænska stórliðinu Real Madrid. Varð liðið þrívegis Evrópumeistari og tvívegis Spánarmeistari undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×