Innlent

Kótelettugestur í öndunarstopp í fangaklefa á Selfossi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fyrri Kótilettuhátíð.
Frá fyrri Kótilettuhátíð. Kótilettan

Lögreglan á Suðurlandi telur að lögregluþjónar og hjúkrunarfræðingur hafi bjargað lífi karlmanns sem handtekinn var á Selfossi um helgina fyrir óspektir. Greint er frá þessu í tilkynningu frá lögreglu.

Þar segir að lögregla hafi handtekið karlmann á hátíðarsvæði við Hrísmýri aðfaranótt sunnudags. Þar fór fram kvölddagskrá á Kótelettunni þar sem fjölmargir af vinsælustu listamönnum þjóðarinnar tróðu upp.

Dyraverðir hafi yfirbugað manninn vegna ölvunar og óspekta. Færðu lögregluþjónar hann í fangaklefa á Selfossi.

„Vegna ástands mannsins var fylgst sérstaklega með honum. Fljótlega eftir komu í fangahús kastaði hann upp og fór í framhaldi af því í öndunarstopp. Endurlífgunaraðgerðir voru þegar hafnar af lögreglumönnum og hjúkrunarfræðingi sem staddur var í fangahúsinu vegna annars verkefnis og komst maðurinn fljótlega til meðvitundar á ný,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Maðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús í Reykjavík en útskrifaður þaðan, heill heilsu, undir morgun.

Þar sem um alvarlegt atvik var að ræða hafi lögregla tilkynnt málið til Nefndar um eftirlit með störfum lögreglu. Að auki hafi verið óskað eftir því við ríkissaksóknara að hann, eða sá er hann felur málið, taki rannsókn þess yfir.

„Það er mat þess er þetta ritar að lögreglumenn og nærstaddur hjúkrunarfræðingur hafi, með árvekni sinni og skjótum og fumlausum viðbrögðum, bjargað lífi mannsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×