Fótbolti

Skoraði fyrstu mörkin í MLS gegn stjörnuliði Inter og trónir á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Carles Gil fagnar Arnór Ingva eftir annað af mörkum hans í leiknum.
Carles Gil fagnar Arnór Ingva eftir annað af mörkum hans í leiknum. @NERevolution

Arnór Ingvi Traustason skoraði tvö mörk í sigri New England Revolution á Inter Miami í MLS-deildinni í fótbolta í Bandaríkjunum í nótt. Voru þetta fyrstu mörk hans fyrir félagið. Er liðið því enn á toppi Austurdeildar.

Guðmundur Þórarinsson spilaði nær allan leikinn í 1-0 sigri New York City á CF Montréal en Róbert Orri Þorkelsson var ekki í leikmannahóp síðarnefnda liðsins.

Fyrrum fótboltamaðurinn David Beckham á Inter Miami en liðið er á sínu fyrsta tímabili í MLS-deildinni. Lítið hefur gengið hjá lærisveinum Phil Neville það sem af er tímabili og gæti sæti Neville verið heitt eftir útreiðina sem liðið fékk í nótt.

Arnór Ingvi skoraði fyrsta mark leiksins eftir stundarfjórðung með frábærum skalla af stuttu færi.

Staðan var orðin 2-0 eftir tæplega hálftíma leik og Arnór Ingvi gerði í raun út um leikinn á 36. mínútu með öðru marki sínu. Staðan var hins vegar orðin 4-0 í hálfleik og sigurinn svo gott sem kominn í hús.

Revolution fullkomnaði niðurlæginguna með fimmta marki leiksins á 83. mínútu, lokatölur 5-0. Í liði Inter Miami voru Blaise Matuidi, Ryan Shawcross og Gonzalo Higuaín.

Guðmundur Þórarinsson var í vinstri bakverði New York City og spilaði 83 mínútur í góðum 1-0 sigri á CF Montréal. Sigurmark leiksins skoraði Ismael Tajouri eftir tæplega hálftíma leik. Róbert Orri Þorkelsson gekk nýverið í raðir Montréal en hann var ekki í leikmannahóp liðsins í leiknum.

Arnór Ingvi og félagar tróna sem fyrr á toppi Austurdeildar MLS með 30 stig að loknum 15 umferðum. CF Montréal eru í 5. sæti með 22 stig eftir 14 leiki á meðan New York City er í 7. sæti með 20 stig eftir 13 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×