Innlent

Segist ekki hafa fengið neina beiðni um að slökkva á myndavélunum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stúlkurnar eru fimmtán og sextán ára og spila fyrir Selfoss.
Stúlkurnar eru fimmtán og sextán ára og spila fyrir Selfoss.

„Laugardalshöll er fjölnota hús og ekki ætluð sem gistiaðstaða," segir Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri Laugardalshallar.

Líkt og Vísir greindi frá fundust eftirlitsmyndavélar í gistiaðstöðu ungra stúlkna á Rey Cup. Foreldrar líta málið alvarlegum augum og hefur málið verið tilkynnt til lögreglu, en aðstöðuna nýttu stelpurnar meðal annars til fataskipta og fleira.

„Það kom engin beiðni um að slökkva á myndavélunum. Þær eru ekki faldar heldur sýnilegar," segir Birgir og vísar á mótshaldara Rey Cup.

Stúlkurnar tóku þessa mynd af skjám öryggisvarða í Laugardalshöll, sem sýndu beint frá gistiaðstöðunni. 

„Rey Cup hlýtur að eiga að tilkynna sínum notendum þetta,“ segir hann. Aðspurður hvort mótshaldarar hafi vitað af myndavélunum segist hann ekki hafa hugmynd um það. Þó geri hann ráð fyrir því enda hafi þessi aðstaða lengi verið notuð undir Rey Cup.

Þá segist Birgir ekkert hafa heyrt frá lögreglu vegna málsins en fagnar því að málið verði rannsakað. Ekkert brot hafi verið framið. 

„Ef þetta er eitthvað vafamál - setjið þetta þá í lögreglurannsókn. Við lögum allt sem þarf að laga. Lögreglan í málið og allt upp á borðið. Hér er enginn feluleikur. Við höfum ekki brotið neitt af okkur og það hefur enginn orðið fyrir broti, hvorki stúlkur né strákar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×