Handbolti

Strákarnir hans Dags nálægt stigi gegn Svíum eftir frábæran endasprett

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Japanir spiluðu miklu betur gegn Svíum í dag en gegn Dönum í fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum.
Japanir spiluðu miklu betur gegn Svíum í dag en gegn Dönum í fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum. getty/Dean Mouhtaropoulos

Japan er enn án stiga í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó. Strákarnir hans Dags Sigurðssonar töpuðu fyrir Svíþjóð í B-riðli í dag, 26-28.

Allt annað var að sjá til japanska liðsins í dag en í fyrsta leiknum gegn Danmörku þar sem það tapaði stórt, 47-30.

Allt benti til þess að Svíþjóð, silfurliðið á síðasta heimsmeistaramóti, myndi vinna öruggan sigur í dag. Svíar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-17, eftir að hafa skorað sex af síðustu átta mörkum fyrri hálfleiks.

Svíar náðu nokkrum sinnum sex marka forystu og virtust ætla að landa sigrinum nokkuð þægilega. Japanir gáfust ekki upp og breyttu stöðunni úr 19-25 í 26-27. Svíþjóð skoraði hins vegar síðasta mark leiksins og tryggði sér stigin tvö.

Hiroki Motoki skoraði sex mörk fyrir Japan. Hampus Wanne var markahæstur hjá Svíþjóð með átta mörk. Jim Gottfridsson skoraði fjögur mörk.

Svíþjóð er með fjögur stig í B-riðlinum líkt og Danmörk. Japan er án stiga á botni hans. Næsti leikur Japana er gegn Egyptum á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×