Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, tilkynnti í dag að slökkviliðsmenn hafi barist við meira en fimmtíu elda á undanförnum sólarhring og líklegt sé að enn fleiri eldar kvikni á næstu dögum vegna hitabylgju sem er í kortunum. Fréttastofa Reuters greinir frá.
„Ég vil ítreka það að ágúst verður erfiður mánuður,“ sagði forsætisráðherrann í dag. „Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að vera í viðbragðsstöðu þar til þetta tímabil er yfirstaðið.“
Slökkviliðið í Grikklandi lýsti því yfir í dag að vanræksla á sveitabæjum og framkvæmdasvæðum hafi orðið til þess að einhverjir eldar hafi kviknað. Flestir eldanna hafa brunnið í suðurhluta Peloponnese héraðsins en engir hafa farist í eldunum.
Auk eldanna í Grikklandi hafa eldar logað á Sardiníu og Sikiley í Ítalíu. Slökkviliðið á Sardiníu hefur notið aðstoðar slökkviliðsflugvéla frá Frakklandi og Grikklandi, sem hafa barist gegn eldunum úr lofti. Meira en fjögur þúsund hektarar af skóglendi hafa orðið eldunum að bráð og meira en 350 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldanna. Þá kviknuðu eldar nærri bænum Erice á Sikiley í dag.
Meira en 1.500 hektarar af skóglendi hafa brunnið í Katalóníu á Spáni um helgina og tugir hafa þurft að flýja heimili sín. Tekist hefur þó að slökkva lang flesta eldana í dag. Þá hafa meira en 2.500 hektarar brunnið í Lietor á Spáni undanfarna daga áður en slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldanna þar. Á þessu ári hafa meira en 35 þúsund hektarar af landi brunnið á Spáni.
Náttúruhamfarir í Evrópu hafa verið mikið í fréttum undanfarið en flóð eftir hamfararigningar riðu yfir Þýskaland, Belgíu, Austurríki og fleiri lönd í Vestur-Evrópu í síðustu viku. Hátt í 200 fórust í flóðunum. Þá hafa úrhellisrigningar í Englandi og Wales leikið landsmenn grátt og breyttust götur Lundúna í ár í nótt og í morgun.