Danir eiga því enn möguleika á að verja Ólympíutitilinn sem þeir unnu undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar í Ríó 2016.
Danmörk byrjaði betur og komst í 5-2. Noregur vann sig vel inn í leikinn og náði forystunni, 9-10 en Danir enduðu fyrri hálfleikinn betur og leiddu með einu marki að honum loknum, 13-12.
Í upphafi seinni hálfleiks náði Danmörk svo heljartaki á leiknum. Heimsmeistararnir skoruðu sex af fyrstu átta mörkum seinni hálfleiks og náðu fimm marka forskoti, 19-14. Eftir þetta var róður Norðmanna þungur og þeir náðu aldrei að minnka muninn í minna en þrjú mörk.
Undir lokin breikkaði bilið og Danir unnu á endanum sex marka sigur, 31-25.
Mikkel Hansen og Jacob Holm skoruðu átta mörk hvor fyrir Danmörku og Matthias Gidsel fimm.
Sander Sagosen var í strangri gæslu dönsku varnarinnar en skoraði samt átta mörk. Hann fékk sína þriðju brottvísun á 54. mínútu og þar með rautt spjald. Sagosen var allt í öllu í sóknarleik norska liðsins en fékk litla hjálp. Harald Reinkind skoraði fimm mörk og var næstmarkahæstur hjá Noregi.
Í undanúrslitunum mætir Danmörk Spáni. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Frakkland og annað hvort Egyptaland eða Þýskaland.