Frá þessu greinir ísraelski miðilinn Jerusalem Post og vísar í frétt sjónvarpsstöðvarinnar Keshet 12. Allir ferðamennirnir eru sagðir bólusettir en talið er að einn þeirra hafi smitast um borð í fluginu til Íslands og í kjölfarið sýkt samferðamenn sína.
Að sögn N12, fréttastofu Keshet 12, vinna stjórnvöld í Ísrael nú að því að skipuleggja sérstakt sjúkraflug til að flytja einstaklingana til Ísraels.
Von á því að talan hækki
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, staðfestir að mikill fjöldi ísraelskra ferðamanna hafi nýverið greinst með Covid-19 en getur ekki gefið upp nákvæman fjölda.
Hún segir að rúmlega helmingur hópsins sem kom til landsins hafi nú greinst jákvæður en á von á því að talan eigi eftir að hækka. Allur hópurinn er ýmist kominn í einangrun eða sóttkví og dvelja margir í farsóttahúsi. Hjördís gat ekki veitt upplýsingar um hvenær ferðamennirnir komu til Íslands eða hvort einhverjir hafi verið lagðir inn á sjúkrahús.
Eykur álagið á heilbrigðiskerfinu
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við fréttastofu að hópar erlendra ferðamanna hafi vissulega verið að greinast hér á landi.
„Rakning hefur sýnt það að þetta er ný veira þannig að greinilegt er að þetta fólk hefur komið með þessa veiru með sér. Landspítalinn hefur líka greint frá að þetta sé auka álag á kerfið okkar. Þetta er bara hluti af þeim pakka sem við erum að fást við,“ segir Þórólfur um hópsýkingarnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.