Innlent

Ís­lensk fjöl­skylda fékk far með Dönum frá Afgan­istan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ein af þremur íslenskum fjölskyldum sem enn var stödd í Afganistan er komin til Kaupmannahafnar.
Ein af þremur íslenskum fjölskyldum sem enn var stödd í Afganistan er komin til Kaupmannahafnar. EPA-EFE/BUNDESWEHR

Íslendingar voru meðal þeirra sem flugu á vegum danskra stjórnvalda frá Islamabad í Pakistan til Kaupmannahafnar í morgun. Utanríkisráðherra Danmerkur greindi frá þessu á Twitter fyrr í dag.

„Rýmingarvélin frá Islamabad til Kaupmannahafnar, sem lenti nýlega, flutti 131 farþega,“ segir í tísti Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur.

Vélin lenti í Kaupmannahöfn fyrir um fjórum klukkustundum síðan og segir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að um borð í flugvélinni hafi verið ein af þessum íslensku fjölskyldum sem hefur verið föst í Afganistan.

„Það eru þá enn þá tvær fjölskyldur eftir úti sem við erum í sambandi við og erum að reyna að koma heim,“ segir Sveinn.

Ekki er ljóst hvenær fjölskyldan kemst alla leið heim til Íslands en hún er í það minnsta komin til Kaupmannahafnar. Fjölskyldurnar sem enn eru úti eru báðar annað hvort með íslenskan ríkisborgararétt að sögn Sveins eða með tengsl á Íslandi.

Um borð í vélinni voru bæði Íslendingar og Svíar og skrifar Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, í svari við tístinu:

„Þúsund þakkir! Norrænt samstarf er gulls ígildi.“


Tengdar fréttir

Tvenn íslensk hjón með börn enn í Kabúl

Annar þeirra tveggja íslensku ríkisborgara sem sinnt hafa verkefnum fyrir stofnanir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan er kominn til Sameinuðu arabísku furstadæmanna heilu og höldnu. Utanríkisráðuneytinu er nú kunnugt um tíu íslenska ríkisborgara sem enn eru staddir í afgönsku höfuðborginni Kabúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×