Handbolti

„Mikið áfall að þurfa að hætta í handbolta“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pétur Júníusson.
Pétur Júníusson. Vísir/Skjáskot

Hinn 29 ára gamli Pétur Júníusson þurfti að taka sér þriggja ára hlé frá handboltaiðkun vegna þrálátra meiðsla en er mættur aftur í Olís deildina með nýliðum Víkings.

Pétur var einn besti línumaður deildarinnar um tíma og var lykilmaður í liði Aftureldingar en þurfti að taka sér frí frá handboltanum árið 2018.

„Hnéið sagði stopp við mig. Ég var í samtali við lækni og hann sagði að ef ég ætti að eiga einhvern möguleika á að spila handbolta aftur þyrfti ég að stoppa. Hann vissi ekki hvort það yrðu 6 mánuðir, heilt ár eða meira,“ sagði Pétur í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Þetta var mjög mikið áfall. Ég hætti alveg að fylgjast með handbolta. Ég mætti ekki á völlinn að styðja mína menn. Það tók of mikið á. Ég kúplaði mig alveg út og tók góða pásu. Það hefur gert gott fyrir mig,“ segir Pétur.

Víkingar komust óvænt upp í efstu deild á dögunum þegar Kría ákvað að taka ekki sæti sitt í Olís-deildinni. Fljótlega í kjölfarið gekk Pétur í raðir Víkinga en hann mun þó koma sér rólega af stað í vetur.

„Ég hef bara verið í styrktarþjálfun og það hefur gengið vel. Ég er í betra standi en ég þorði að vona eftir nánast þriggja ára kyrrsetu. Ég vona að ég geti komið að fullu í handboltann um áramót,“

Nánar er rætt við Pétur í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Pétur Júníusson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×