Handbolti

Mark­varða­breytingar er meistarar síðasta ár hefja tíma­bilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Björgvin Páll er komið í markið hjá Val eftir að hafa varið mark Hauka á síðustu leiktíð.
Björgvin Páll er komið í markið hjá Val eftir að hafa varið mark Hauka á síðustu leiktíð. Vísir/Hulda Margrét

Undanfari hvers tímabils í handbolta hér á landi er hinn árlegi leikur í meistarakeppni HSÍ. Þar mætast að þessu sinni Íslandsmeistarar Vals og deildarmeistarar Hauka. Leikið er í Origo-höllinni að Hlíðarenda og verður leikurinn í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram um komandi helgi en var flýtt vegna þátttöku Vals í 1. umferð Evrópudeildarinnar. Valur mætir HC Porec frá Króatíu ytra á föstudag og laugardag.

Íslandsmeistarar Vals mæta til leiks með nýjan mann í búrinu en þeir sömdu við Björgvin Pál Gústavsson fyrr á þessu ári. Björgvin Páll lék með Haukum á síðustu leiktíð en mun nú hjálpa Val að verja titilinn.

Einnig er kominn nýr maður í búrið hjá Haukum en Aron Rafn Eðvarsson er kominn aftur á heimaslóðir eftir að hafa yfirgefið félagið árið 2013. Þá er Stefán Huldar Stefánsson kominn til baka eftir að hafa verið á láni hjá Gróttu á síðustu leiktíð.

Undirbúningur Vals fyrir leik kvöldsins sem og leikina í Evrópu er ekki eins og best verður á kosið en nýverið greindust þrír leikmenn liðsins með kórónuveiruna. Það er því ljóst að leikmannahópur Vals verður eilítið laskaður er liðið mætir til leiks í kvöld.

Aðrar breytingar á Valsliðinu eru þær að Anton Rúnarsson er farinn til Emsdetten en Motoki Sakai er genginn til liðs við félagið frá Toyoda Gosei Flue Falcon í Japan.

Leikur Vals og Hauka í meistarakeppni HSÍ hefst klukkan 19.30 og verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Útsendingin hefst stundarfjórðungi fyrr eða klukkan 19.15.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×