Handbolti

Björgvin Páll: Þeir voru með mig í vasanum til að byrja með

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Björgvin Páll ver í kvöld
Björgvin Páll ver í kvöld Vísir: Hulda Margrét

Björgvin Páll Gústavsson var hetja Valsmanna þegar þeir tóku á móti Haukum í Meistarakeppni HSÍ á Hlíðarenda í kvöld. Þetta var heldur óvenjulegur leikur fyrir Björgvin þar sem hann var að spila á móti sínum gömlu liðsfélögum. 

„Mér líður skringilega venjulega. Mér leið mjög vel inn á vellinum þrátt fyrir að hafa ekki verið að verja bolta fyrstu mínúturnar, svo fór þetta að rúlla um miðjan seinni hálfleik,“ sagði Björgvin sáttur eftir leikinn. 

Björgvin átti mjög góðan kafla í seinni hálfleik og áttu Haukarnir erfitt með að koma boltanum framhjá honum. 

„Þeir voru með mig í vasanum til að byrja með, ég náði að snúa taflinu við þannig það gekk vel. Mér fannst líka vörnin frábær í fyrri hálfleik, þar á ég kannski 4-5 bolta sem ég hefði getað varið. Mér finnst við hefðum getað klárað þennan leik fyrr en það er kannski mér að kenna.“

Næsta verkefni Valsmanna er Evrópukeppnin en þeir halda út í nótt og keppa á föstudaginn á móti Porec í Króatíu. 

„Við erum að spila á fáum mönnum og við erum að eyða miklu pústi. Menn eru peppaðir og jákvæðir. Við missum nokkra leikmenn út og við erum ekkert að væla yfir því. Við klárum bara svona verkefni og ætlum að klára Króatíuverkefnið. “

Ekki nóg með að þeir séu á leið út í Evrópukeppni þá er Bikarkeppnin eftir og svo verður Olís-deildin flautuð á í kjölfarið. 

„Það er nóg framundan þar til að Olís-deildin byrjar. Við mætum bara peppaðir og mætum með stóran mannskap. Þegar menn koma til baka úr Covid þá verðum við erfiðir,“ sagði Björgvin að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×