Skoðun

Frumkvöðlalaun - fyrir framtíðina

Geir Sigurður Jónsson skrifar

Enn eina september-byrjun liggur frumkvöðla-samfélagið undir feldi og skrifar Rannís umsókn. Umsóknarfrestur er að renna út, dagarnir eru farnir og næturnar farnar að styttast. Í þessu umsóknarferli, þar sem 2-5% umsókna hljóta á endanum styrk, skýtur alltaf sama spurningin upp kollinum, af hverju er þröskuldurinn svona hár? Af hverju er ekki hægt að aðstoða framsækið fólk með smáskömmtum á upphafsstigum verkefna og leyfa frumkvöðlum að finna sig á viðeigandi hraða?

Lærum af mistökunum - aftur og aftur

Frumkvöðlar eru eins og lítil börn sem verða að fá að reyna að standa upp aftur og aftur og aftur áður en ætlunarverkið loksins tekst. Þetta er algert grundvallaratriði í þróunarstarfsemi, mistök eru oft verðmætasta reynslan sem hver frumkvöðull byggir upp. Frumkvöðullinn verður að fá að prófa hlutina og þroskast með stuðningi þeirra sem hafa áður gengið götuna til enda.

Frumkvöðlalaun (sbr. listamannalaun)

Listamannalaun eru grundvöllur fyrir mörgum þáttum í blómlegu menningarlífi okkar. Þar borgum við listamönnum til að auðga menningarlífið, gera tilraunir og vinna að listsköpun sem auðgar líf okkar allra. Þar eru ekki allar afurðir fullkomnar, en listamennirnir þroskast, gera betur næst en í einhverjum tilfellum enda tilraunir á stórvirki. Af hverju leyfum við frumkvöðlum ekki að ganga í gegnum sama þroskaferli?

Í núverandi umhverfi, verða léttvæg mistök eða óvæntar beygjur í upphafsferlinu til þess að frumkvöðlar neyðast til að fara að „vinna“ aftur - hætta við frábæra hugmyndina sem fæddist ekki nægjanlega fullmótuð daginn sem við settumst niður á kaffihús til að ræða hana. Frumkvöðlalaun myndu hleypa súrefni inn í íslenskt frumkvöðlasamfélag og hvetja ungt fólk til dáða í að virkja eigin sköpunarkraft til að leggja grunn að framtíðar atvinnuvegum Íslands.

Höfundur er forritari og frumkvöðull og skipar 6. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Sjá meira


×