Fótbolti

Gleymdur og grafinn Chilwell: Ekki spilað síðan í úr­slita­leik Meistara­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ben Chilwell fagnar sigri í Meistaradeild Evrópu.
Ben Chilwell fagnar sigri í Meistaradeild Evrópu. Chris Lee/Getty Images

Eftir að hafa verið aðeins einn þriggja útispilara sem fór með enska landsliðinu á EM án þess að spila mínútu hefur Ben Chilwell verið í sama hlutverki hjá Chelsea það sem af er tímabili.

Chelsea keypti vinstri bakvörðinn Ben Chilwell frá Leicester City á 50 milljónir punda sumarið 2019. Hann varð strax lykilmaður í liði Frank Lampard en staðan breyttist aðeins eftir að Thomas Tuchel tók við af Lampard. 

Tuchel gaf Chilwell reglulega hvíld í ensku úrvalsdeildinni en notaði krafta hans óspart í Meistaradeild Evrópu. Spilaði hann alla leiki liðsins frá 8-liða úrslitum og allt þangað til bikarinn fór á loft í kjölfar 1-0 sigurs á Manchester City.

Eftir sigur í Meistaradeildinni fór hinn 24 ára gamli Chilwell á EM með enska landsliðinu. Þar spilaði hann ekki eina mínútu og virðist sem þau vonbrigði hafi elt hann inn í núverandi tímabil. Svo segir þjálfari hans allavega.

„Eftir vonbrigðin á EM náði hann lítið sem ekkert að slaka á í fríinu sínu. Hann hefur verið að velta sér upp úr þessu og pirra sig á því sem gerðist. Því var hann frekar andlega þreyttur þegar hann kom til baka.“

Chilwell var - og er eflaust - enn súr með það hvernig EM þróaðist hjá honum. Í fyrsta leik Englands ákvað Gareth Southgate, þjálfari liðsins, að stilla hægri bakverðinum Kieran Trippier upp í vinstri bakverði. 

Í öðrum leiknum sat Chilwell á bekknum frá upphafi til enda. Eftir leik spjallaði hann við Billy Gilmour, miðjumann Skotlands og liðsfélaga sinn hjá Chelsea. Í ljós kom skömmu síðar að Gilmour væri með Covid-19 og því þurfti Chilwell að fara í sóttkví. Missti hann því af lokaleik riðlakeppninnar, leik sem hann hefði mögulega fengið tækifærið í.

Mount sneri aftur í sigrinum á Þýskalandi í 16-liða úrslitum en Chilwell var utan hóps. Hann var á bekknum gegn Úkraínu í 8-liða úrslitum og í stöðuni 4-0 hefði verið kjörið að leyfa Chilwell að fá nokkrar mínútur. Þess í stað kom Trippier inn fyrir Luke Shaw sem hóf leik í vinstri bakverðinum.

Chilwell var svo hvorki í leikmannahóp Englands í undanúrslitum né úrslitaleiknum sjálfum

Eftir að hafa horft á EM í sófanum heima hjá sér mætti Marcos Alonso ferskur til æfinga hjá Chelsea á meðan Chilwell var í raun nýfarinn í frí. Þegar sá enski mætti loks til æfinga hafði Alonso verið búinn að æfa í fimm vikur.

Það var því eðlilegt að hann hafi byrjað sem vinstri vængbakvörður Chelsea-liðsins. Hann skoraði svo í fyrsta leik tímabilsins og hefur spilað allar þær mínútur sem í boði eru síðan. Þá bar hann fyrirliðabandið gegn Aston Villa þegar Cesar Azpilicueta og Jorginho byrjuðu á bekknum.

Southgate sagðist ekki geta valið Chilwell í landsliðsverkefni Englands nú í september þar sem leikmaðurinn hefði ekki spilað síðan í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor. Að því sögðu var Jesse Lingard valinn en hann hafði aðeins spilað fjórar mínútur fyrir Manchester United í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.

Eftir að hafa náð hápunkti ferilsins þegar hann lyfti Meistaradeildarbikarnum virðist Chilwell mögulega hafa náð sínum lægsta punkti. Tuchel virðist þó hafa fulla trú á að hann jafni sig fyrr en síðar og gæti vel verið að 50 milljón punda bakvörðurinn fái loks að sýna hvað hann getur er Chelsea hefur titilvörn sína í Evrópu annað kvöld gegn Zenit St. Pétursborg. 

Chilwell blómstraði í þessari sömu keppni á síðustu leiktíð og hver veit nema það gerist aftur.

Chelsea tekur á móti Zenit St. Pétursborg í Meistaradeild Evrópu klukkan 19.00 annað kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×