Viðskipti innlent

Kaupir sig inn á markaðinn fyrir reyktan lax á Spáni fyrir tvo milljarða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Ármannsson er forstjóri Iceland Seafood.
Bjarni Ármannsson er forstjóri Iceland Seafood. Iceland Seafood.

Iceland Seafood International hefur samið um kaup á spænska fyrirtækinu Ahumados Dominguez fyrir 12,4 milljónir evra, tæpa tvo milljarða króna. Fyrirtækið er helst þekkt fyrir að framleiða reyktan gæðalax.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Seafood þar sem segir að búið sé að ganga frá samkomulaginu um kaup á spænska félaginu. Iceland Seafood mun eignast 85 prósent í Ahumados Dominguez en Petro Mestanza, framkæmdastjóri fyrirtækisins, mun eiga fimmtán prósent, auk þess sem að hann mun áfram starfa fyrir fyrirtækið.

Í tilkynningunni segir að Ahumados Dominguez sé helst þekkt fyrir framleiðslu á reyktum gæðalaxi, auk þess sem að fyrirtækið starfræki sérverslanir á Spáni. Segir í tilkynningunni að spænska fyrirtækið sé eitt af sjö stærstu vörumerkjunum á Spáni þegar kemur að reyktum laxi.

Lítur Iceland Seafood svo á að kaupin muni styrkja stöðu fyrirtækisins á ört vaxandi Spánarmarkaði auk þess sem að tækifæri skapist til þess að selja gæðaþorsk í verslunum Ahumados Dominguez.

Í tilkynningunni er haft eftir Bjarna Ármannssyni, forstjóra Iceland Seafood, að hann sé ánægður með kaupin sem styrki stöðu fyrirtækisins. Spænska fyrirtækið sé góð viðbót við laxavörulínu Iceland Seafood sem þegar sé sterk á Írlandsmarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×